Hvar er best að geyma orkuna?

15/10/2019

Hvar er eðlilegast að virkja vatnsafl og geyma vatn í lónum til vetrarins?

Þannig spyr Þorbergur Steinn Leifsson, verkfræðingur, í nýlegri færslu á samfélagsmiðlinum Facebook og birtir um leið áhugaverða yfirlitsmynd frá Nytjalandi um gróðurfar á Íslandi. Þorbergur starfar hjá Verkís og er yfirhönnuður Hvalárvirkjunar, en hann er einn fremsti hönnuður landsins á sviði vatnsaflsvirkjana.

Þorbergur veltir því upp hvort það hljóti ekki að vera heppilegast að virkja og geyma orku á þeim svæðum sem liggja hátt í landslaginu og eru lítt gróin (grá svæði á myndinni). Hann bendir á að þau svæði séu aðallega á miðhálendinu og á Vestfjörðum; á Ófeigsfjarðarheiði og á Glámu.

Þorbergur dregur fram með rauðum hring á kortinu að á miðhálendinu sé þegar búið að nýta eða friða svæði (Þjórsá, Jökulsá á Dal og á Fjöllum og Blanda). Græna svæðið á miðjum norðurhlutanum sé afrennslissvæði Skjálfandafljóts og Jökulsánna í Skagafirði, sem báðar eru í friðunarflokki samkvæmt 3ja áfanga rammaáætlunar.

Út frá kortinu dregur Þorbergur þá ályktun að einu heppilegu svæðin sem þá séu eftir til að geyma orku sé að finna á Vestfjörðum. Hann bendir á að miðluð og geymd orka sé sérstaklega mikilvæg til að nota á móti vindorku og flytja út og inn um sæstreng. Umræðan um vindorkugarða er mikil í þjóðfélaginu um þessar mundir og ýmis stór áform uppi um byggingu slíkra garða. Samspil vatnsaflsvirkjana og vindorkugarða er nauðsynlegt því ógjörningur er að reka vindorkugarða án aðkomu vatnsafls, eigi að vera stöðugleiki í kerfinu.

Í færslu sinni bendir Þorbergur á að hart sé nú barist fyrir því að koma í veg fyrir nýtingu þeirra svæða á Vestfjörðum og miðhluta norðanverðs miðhálendisins sem hentað gætu best til virkjunar og geymslu orku. Ef tekst að hindra framgang verkefna á þessum landsvæðum telur Þorbergur að ákaflega litlir möguleikar séu eftir til að nýta heppilegustu svæðin á Íslandi til sveigjanlegrar orkuframleiðslu. Þannig orka verður hins vegar enn mikilvægari í framtíðinni til að sporna gegn CO2 útblæstri vegna annarrar orkuframleiðslu.

Mynd: Nytjaland (fengin að láni af facebook-síðu Þorbergs Steins Leifssonar).
Mynd: Nytjaland (fengin að láni af facebook-síðu Þorbergs Steins Leifssonar).