Raforka á Vestfjörðum


Raforkuþörf Vestfjarða er í dag um 260 GWh á ári og mun fara ört vaxandi verði af áformum um kalkþörungaverksmiðju í Súðavík auk laxeldisáforma í Ísafjarðardjúpi og á sunnanverðum Vestfjörðum. Þeirri uppbyggingu mun fylgja veruleg fólksfjölgun og aukin eftirspurn eftir raforku.

Í dag byggir raforkuframleiðsla á Vestfjörðum mest á einni virkjun, Mjólkárvirkjun (10,6MW) með um meðalframleiðslugetu uppá um 70 GWh á ári. Heildarraforkuframleiðsla á Vestfjörðum árið 2016 var 106,7 GWh á ári og af því var framleiðsla Orkubús Vestfjarða 89,7 GWh/ári og smávirkjanir bænda 17 GWh á ári.

Sú orka sem ekki er framleidd innan svæðisins (Vestfjarða) er flutt inn með Vesturlínu sem heimamenn kalla Hundinn en hún liggur frá Glerárskógi til Mjólkárvirkjunar. Vestfirðir eru því tengdir svokallaðri geislatengingu þ.e.a.s. með einni línu um 183 km leið yfir svæði sem er bæði veðurfarslega og landfræðilega erfitt.

Í flutningskerfi Landsnets á Vestfjörðum eru allar línur á 66KV spennu og hærri. Þó ber að geta þess að Orkubú Vestfjarða á enn rúma 13km af 66KV línum. Hundurinn svokallaði er á 132KV spennu en línur frá Mjólká til norður- og suðursvæða Vestfjarða eru á 66KV spennu sem aftur greinist niður í lægri spennu til notenda.

Áætluð stærð Hvalárvirkjunar er um 55 MW í uppsettu afli með 5818 klst. nýtingartíma á ári og orkugetu upp á 320 Gwh á ári. Með tengingu til Ísafjarðar um nýjan afhendingarstað í Ísafjarðardjúpi er Hvalárvirkjun talin sá virkjunarkostur á Vestfjörðum sem tryggir orkuöryggi Vestfirðinga best. Þar með verður Hvalárvirkjun hjartað í raforkukerfi Vestfjarða.

VesturVerk hefur óskað eftir formlegum viðræðum við Landsnet um tengingu Hvalárvirkjunar með jarðstreng yfir Ófeigsfjarðarheiði. Frá nýjum afhendingarstað verði virkjunin tengd inná Mjólkárlínu fyrir botni Kollafjarðar í 40 km fjarlægð frá Mjólkárvirkjun (40 km í háspennulínum).

Á fjölsóttum borgarafundi Vestfirðinga sem haldinn var af Fjórðungssambandi Vestfirðinga í íþróttahúsinu á Torfnesi á Ísafirði 24. september 2017 var samþykkt samhljóða svohljóðandi ályktun: Raforkumál á Vestfjörðum verði færð í nútímabúning með hringtengingu Vestfjarða um Ísafjarðardjúp, þannig að atvinnutækifærum fjölgi á Vestfjörðum". VesturVerk styður heilshugar þá ályktun en þess ber þó að geta að ákvörðun um hvert og hvernig virkjanir eru tengdar liggur hjá Landsneti en ekki virkjunaraðilanum.

Gera má ráð fyrir að Vestfirðir verði hringtengdir frá nýjum afhendingarstað í Ísafjarðardjúpi til Ísafjarðar í beinu framhaldi af tengingu Hvalárvirkjunar.

Hér að neðan má sjá aflflutning á neti Landsnets hverju sinni:

https://www.landsnet.is/flutningskerfid/kerfisstjornun/aflflutningur-nuna/