Skúfnavötn


Hugmyndir um virkjun Þverár úr Skúfnavötnum eru ekki nýjar af nálinni því strax á fimmta áratug síðustu aldar var hafist handa við að kortleggja umhverfi Skúfnavatna, langsnið mögulegrar pípulínu landmælt og vatnsmælingar settar í gang árið 1948. Loftur Þorsteinsson, þá verkfræðingur hjá Raforkumálastjóra, gerði drög að áætlun um Skúfnavatnavirkjun árið 1952.

Rannsóknir á áttunda áratugnum

Tveimur áratugum síðar var nýju lífi blásið í hugmyndir um Skúfnavatnavirkjun þegar Rafmagnsveitur ríkisins fólu Almennu verkfræðistofunni að kanna aftur virkjunaraðstæður og var farin nokkurra daga ferð á virkjunarsvæðið og mælingar framkvæmdar á lónstæði, stíflustæðum og pípulínu. Skrifuð var stutt skýrsla haustið 1974 um niðurstöður athugana sem voru að virkja mætti Þverá með 18 Gl miðlun í Skúfnavötnum, Austurmannagilsveitu og Hvannadalsárveitu í 10 MW orkuveri með 64 GWh orkuvinnslugetu á ári. Á þessum tímapunkti hafði Orkustofnun ekki lokið úrvinnslu rennslisgagna og bar að taka niðurstöðunni með fyrirvara. Stofnkostnaður var metinn 810 milljónir króna á verðlagi 1974 en tekið fram að matið væri óábyggilegt vegna ófullnægjandi upplýsinga um efnisnámur o.fl.

VesturVerk fær rannsóknarleyfi

Í framhaldi af rannsóknum 1974 fólu Rafmagnsveitur ríkisins Almennu verkfræðistofunni að gera kostnaðar- og hagkvæmnisathugun og voru niðurstöður birtar í skýrslu í júlí 1976. Árið 1988 endurskoðaði og endurreiknaði Orkustofnun virkjanahugmyndir á Vestfjörðum og byggði niðurstöður sínar á orkulíkani Orkustofnunar og verðlagi í desember 1987. Áætlunin tók fyrir Skúfnavatnavirkjun og gerði ráð fyrir 16 MW virkjun sem framleiddi um 85 GWh af orku á ári.

VesturVerk ehf. fékk upphaflega úthlutað rannsóknarleyfi frá Orkustofnun sem gilti frá 31. mars 2015 til 30. mars 2017. Það leyfi var framlengt og rann út 31. október 2019. Þann 11. nóvember 2019 framlengdi Orkustofnun rannsóknarleyfið enn á ný til 31. október 2022 á grundvelli þess að mun lengri tíma hefur tekið að fá niðurstöðu í framvindu Hvalárvirkjunar en ráð var fyrir gert. Án virkjunar Hvalár verða ekki forsendur fyrir nýjum tengipunkti rafmagns eða öðrum virkjunum í Ísafjarðardúpi.

Virkjunartilhögun

Tilhögun Skúfnavatnavirkjunar byggist á því að inntakslón virkjunarinnar verði í Skúfnavötnum og yrði yfirfallshæð stíflunnar 415m ys. og miðlunarrýmið um 35Gl.

Vatnsvegum hefur verið breytt verulega frá fyrri tillögum til að ná niður kostnaði. Ekki er gert ráð fyrir neðanjarðarvirkjun. Í stað opinna djúpra skurða eins og í fyrri tillögum frá 2007 er talið rekstrarlega öruggara að hafa vatnsveginn allan lokaðan eins og miðað var við í áætluninni frá 1976. Í stað stálpípu á steyptum festlum á yfirborði er nú gert ráð fyrir niðurgrafinni trefjaplastpípu nær alla leið að stöðvarhúsi. Þó er miðað við að neðan við 320 m kyrrstæðan þrýsting verði þrýstipípan úr stáli.

Í virkjunarhugmyndum VesturVerks er gert ráð fyrir að staðsetja virkjunina mun lægra en í fyrri tillögum enda næst þá að nýta fallið niður í amk. 55 m y.s. Gera þarf vinnuveg upp hlíðina meðfram pípunni og er reiknað með að samnýta aðkomuveg upp á fjallið og vinnuveginn. Aðkomuvegurinn yrði því utar í dalnum en miðað var við árið 2007. Heildarvegagerð lengist því ekki en vegurinn verður í brattara landi. Gert er ráð fyrir að virkjað rennsli sé eins og áður 3,3 m³/s en miðað er við 1,2 m víða trefjaplastpípu í stað 1,0 m árið 2007. Virkjunin yrði þá um 9,9 MW og framleiðslugetan 74 GWh/ári.

Veitur

Reiknað er með tveimur veitum, svokallaðri Austurmannagilsveitu í 440 m y.s. þar sem vatni verður veitt um 2,6 km langan skurð að Skúfnavötnum og Hvannadalsárveitu í 483 m y.s. þar sem vatni verður veitt yfir í Austurmannagilsveitu.