Rannsóknir

Rannsóknum vegna matsáætlunar lauk sumarið 2016 og Skipulagsstofnun skilaði áliti sínu í byrjun apríl 2017. Sumarið 2017 var unnið að frekari rannsóknum í samræmi við álit Skipulagsstofnunar og fólust þær m.a. í skráningu fornleifa, rannsóknum á fuglum og lífríki vatna.

Ólokið eru rannsóknir á jarðlögum og jarðefnum. Gert er ráð fyrir að ljúka þeim rannsóknum á sumrunum 2018 og 2019.

Ferðamennska

Í tengslum við gerð mats á umhverfisáhrifum Hvalárvirkjunar var Rannsóknarmiðstöð Ferðamála fengin til að gera úttekt á ferðaþjónustu og útivist á Ströndum og meta hver áhrif Hvalárvirkjunar yrðu á þennan málaflokk. Rannsóknamiðstöðin hefur reynslu af gerð viðhorfskannana og rannsókna á áhrifum framkvæmda á ferðamenn og ferðaþjónustu. Ekki var gerð könnun meðal ferðamanna þar sem lítið er um ferðamenn í Ófeigsfirði. Þess í stað var gerð viðtalskönnun meðal ferðaþjónustuaðila á svæðinu um viðhorf þeirra til virkjunarinnar og áhrifa hennar. Tekin voru viðtöl samkvæmt ákveðnum þemum sem voru rædd og þannig gafst viðmælendum svigrúm til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Könnunin var gerð í október og nóvember 2015.

Innlendir ferðamenn eru meirihluti gesta á Ströndum en hlutfall erlendra ferðamanna hefur verið að aukast mikið síðustu ár vegna mikillar fjölgunar erlendra ferðamanna til landsins. Árið 2014 voru Strandir heimsóttar af um 14% erlendra ferðamanna og 9% innlendra ferðamanna. Á norðanverðum Ströndum eru það einkum Djúpavík, Norðurfjörður og Reykjafjörður sem laða að ferðamenn. Ferðahegðun ferðamanna er nokkuð ólík, en erlendir ferðamenn skipuleggja ferðir sínar með löngum fyrirvara en Íslendingar fara mikið eftir veðrinu á hverjum tíma.

Ófeigsfjörður á Ströndum einkennist af lítilli uppbyggingu og menningarlandslagi sauðfjárbúskapar frá því fyrir vélvæðingu. Náttúran er tiltölulega ósnortin af athöfnum mannsins, þarna er fámenni og rólegt yfirbragð. Könnun sem gerð var meðal ferðamanna á Vestfjörðum sumarið 2008 sýndi að ferðamenn sem heimsóttu landshlutann voru aðallega „náttúruunnendur sem sækja í frið og ró og eru almennt meðvitaðir um umhverfismál“. Aðdráttarafl svæðisins er náttúran, fámenna landbúnaðarsamfélagið og sagan sem þar er að finna.

Ferðaþjónusta verður sífellt umfangsmeiri á norðanverðum Ströndum og hefur sú þróun áhrif á samfélagið. Árneshreppur er nyrst á Ströndum og Strandavegur nær til Norðurfjarðar. Þaðan er einungis sumarvegur fær jeppum yfir í Ófeigsfjörð. Vegakerfið og landfræðilegar aðstæður setja því nokkrar hömlur á þróun ferðaþjónustu á svæðinu.

Samkvæmt niðurstöðum Rannsóknarmiðstöðvar ferðamála hafa norðanverðar Strandir mikið gildi fyrir náttúruferðamennsku og ferðafólk sem sækir í náttúru og fámenni og það sem því tengist.

Áhrif Hvalárvirkjunar á ferðamennsku og útivist

Að ósk Skipulagsstofnunar voru gerðar frekari rannsóknir á fjölda ferðamanna á fyrirhuguðu virkjanasvæði. Samkvæmt könnun Rannsókna og ráðgjafar ferðaþjónustunnar (RFF) lögðu 23-33% Íslendinga sem komu í Árneshrepp leið sína í Ófeigsfjörð á árabilinu 2001-2008. Ef það hlutfall helst enn svipað megi gera ráð fyrir að 2.500 - 3.000 Íslendingar hafi komið í Ófeigsfjörð árið 2014 en um 2.000 árið 2015. Þar við bætast svo erlendir ferðamenn. RRF telur þó líklegt að þessar tölur séu í hærri kantinum. Stafi það af því að fáir tóku þátt í könnuninni og því hæpið að áætla út frá litlu mengi. Einnig stemmi tölurnar ekki við upplifun heimamanna af fjölda ferðamanna á svæðinu, en samkvæmt munnlegum heimildum frá ábúanda í Ófeigsfirði er það helst yfir hásumarið, einkum í júlí, sem ferðamenn eru á svæðinu og fjöldi þeirra hlaupi á hundruðum. Þá getur fjöldinn verið mjög breytilegur á milli ára, fleiri ferðamenn voru á ferð á árunum 2008-2012 en þeim fækkað síðustu ár.

Ferðamenn í strandasýslu og Árneshreppi 2011-2015

Fornleifar

Náttúrustofa Vestfjarða skráði fornleifar á framkvæmdasvæði Hvalárvirkjunar í tengslum við gerð mats á umhverfisáhrifum. Nákvæmari skráning og uppmæling var síðan unnin sumarið 2017 af sama aðila í tengslum við gerð deiliskipulags fyrir Hvalárvirkjun. Áður hefur Fornleifastofnun Íslands ses. skráð fornminjar í öllum hreppnum vegna vinnu við gerð aðalskipulags Árneshrepps.

Í Ófeigsfirði eru 84 minjar skráðar. Þær tengjast helst sjósókn og búskap svo sem naust, lending, beitarhús, réttir og fjárhús. Einnig eru á svæðinu fornleifar tengdar þjóðleiðum og ferðum fólks svo sem vörður og vöð. Á gömlu þjóðleiðinni frá Ófeigsfirði um framkvæmdasvæðið að Hraundal við Ísafjarðardjúp eru skráðar 7 vörður við Vatnalautavötnin. Á Seljanesi eru skráðar 26 fornminjar og 41 í Ingólfsfirði, frá Eyri að Seljanesi.

Langflestar minjanna sem skráðar hafa verið eru fjarri framkvæmdasvæðum Hvalárvirkjunar og í engri hættu vegna virkjunarframkvæmda samkvæmt hættumati.

Á Ófeigsfjarðarheiðinni fara fjórar vörður undir lón við Vatnalautavötn. Tún og túngarðar raskast að hluta við bæ í Ófeigsfirði sem kallast Nýju nátthagar.

Fornleifaskráning vegna Hvalárvirkjunar

Fornleifaskráning vegna deiliskipulags Hvalárvirkjunar - Ófeigsfjörður

Fornleifaskráning fyrir Árneshrepp - hluti 1

Fornleifaskráning fyrir Árneshrepp - hluti 2

Fuglalíf

Í tengslum við mat á umhverfisáhrifum Hvalárvirkjunar fór fram athugun á fuglalífi á áhrifasvæði hennar sumarið 2015.

Við athugun á varpþéttleika sáust tíu fuglategundir. Átta þeirra voru taldar líklegar til að verpa á svæðinu. Heildarþéttleiki þeirra var um 114 pör/km2 og eru 95% öryggismörk um 47 - 182 pör/km2. Þéttast reyndist varp heiðlóu eða um 13 pör/km2 og síðan sólskríkju, um 7 pör/km2. Auk þess sáust kjói og svartbakur og er ekki ólíklegt að fuglarnir verpi á svæðinu. Við athugun utan talningasniða sáust 30 tegundir og af þeim eru fjórar á válista Náttúrufræðistofnunar Íslands en það eru grágæs, straumönd, gulönd og svartbakur.

Þegar flogið var yfir Ófeigsfjarðarheiði fundust engir vatnafuglar, hvorki endur, himbrimar né lómar. Einu fuglarnir sem sáust var hópur átta vaðfugla, líklega sendlingar, við Nyrðra Vatnalautavatn.

Þéttleiki sá sem mældur var, um 114 pör/km2, er í minna lagi í samanburði við þéttleikamælingar á láglendissvæðum þar sem hann hefur mælst, frá 109 pör/km2 til 254 pör/km2. Þegar kom upp fyrir brúnir, yfir 100 metra hæð, sást lítið af fuglum og á flestum talningapunktum var enginn fugl . Þetta er í samræmi við það sem búast mátti við þar sem land er hrjóstrugt á Ófeigsfjarðarheiði og snjóa leysir oft seint.

Sumarið 2017 var fuglalíf rannsakað enn frekar.

Fuglar á áhrifasvæði Hvalárvirkjunar

Fuglar við fyrirhugaða Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði febrúar 2018

Gróður

Gróðurfar sem raskað verður á láglendi vegna framkvæmda við Hvalárvirkjun var rannsakað sumarið 2015 og voru gerð gróðurkort af þessum svæðum.

Gróður á framkvæmdasvæðinu við neðsta hluta Hvalár einkennist af klapparholtum með mosagróðri og mólendi í lægðum undir klettóttum hlíðarhjöllum. Niður úr hlíðinni renna smálækir og meðfram þeim er jarðvegur rakari. Þar er meira um starir og fífa með störum í litlum mýrarblettum. Í hlíðinni eru lítið gróin holt og rýrt mólendi. Þegar ofar dregur verður gróðurþekja gisnari og á það bæði við um mólendi og mosaþekju.

Gróðurfar á Ófeigsfjarðaheiði var rannsakað sumarið 2007 fyrir Orkustofnun vegna Rammaáætlunar. Gróðurfar var kannað umhverfis Nyrðra- og Syðra-Vatnalautavatn, Neðra-Eyvindarfjarðarvatn og Efra- og Neðra-Hvalárvatn á Ófeigsfjarðarheiði. Tegundafjölbreytni háplantna og fléttna var skráð í alls 17 ferkílómetrareitum auk þess sem mosum var safnað í 7 reitanna. Af háplöntum fundust 57 tegundir, 90 tegundir og afbrigði af fléttum og fléttuháðum sveppum og 18 tegundir baukmosa. Hvorki fundust friðlýstar tegundir né tegundir á válista. Sjaldgæfar háplöntur fundust en voru þó allar nokkuð algengar. Gróðurþekja reyndist vera lítil á svæðinu sem einkennist af klapparholtum og melum. Við hagstæðar aðstæður má þó finna vel gróna bolla og brekkur og ber gróðurfarið þar svip af snjódældum.

Gróður á láglendi

Gróðurfar á Ófeigsfjarðarheiði

Vatnalíf

Lífríki vatna á Ófeigsfjarðarheiði var rannsakað haustið 2015 í tengslum við mat á umhverfisáhrifum Hvalárvirkjunar. Skoðuð voru Neðra-Eyvindarfjarðarvatn, Efra-Hvalárvatn og Nyrðra Vatnalautarvatn.

Niðurstöður athugana á smádýralífi í vötnunum sýndu að algengustu dýrahópar á fjörusteinum voru krabbadýr (vatnaflær, árfætlur og skelkrebbi). Var hæsti þéttleiki smádýra í þessum vötnum að finna í Hvalárvatni. Næstalgengustu dýrahópar voru mýflugulirfur og lirfur vorflugna. Í Neðra-Eyvindarfjarðarvatni voru ánar algengasti dýrahópurinn. Meðalþéttleiki hryggleysingja á steinum er mjög lágur í samanburði við niðurstöður rannsókna á 48 vötnum á landinu.

Í svifsýnum sem tekin voru úr vatnsbol vatnanna þriggja fundust fimm hópar dýra, þar af tveir hópar krabbadýra (árfætlur og vatnaflær) sem voru í mestum fjölda, rykmý, þráðormar og stökkmor. Þéttleiki krabbadýra í svifsýnum reyndist afar lágur. Samkvæmt rannsóknum þá er almennt minni tegundafjölbreytni á hálendum heiðum.

Við athugun á tilvist laxfiska í vötnum á áhrifasvæði Hvalárvirkjunar á Ófeigsfjarðarheiði veiddust alls 58 bleikjur í Efra-Hvalárvatni og 27 bleikjur í Nyrðra-Vatnalautavatni, en ekkert veiddist í Neðra-Eyvindarfjarðarvatni.

Í Hvalá er Hvalárfoss í innan við 1 km fjarlægð frá ósnum, en fossinn er ófiskgengur. Húsá er fiskgeng um 600 m frá ósi að Húsárfossi. Í Eyvindarfjarðará er talið að fiskur geti gengið allt að 700-800 m frá ósi. Við rafveiði í Hvalá veiddist ekkert ofan Hvalárfoss en neðan fossins veiddust bleikjuseiði, sem bendir til að þar eigi hrygning sér stað. Til viðmiðunar var einnig rafveitt á tveimur stöðum í Húsá. Í Húsá veiddist hornsíli við Efravað, en við Silungavað veiddust bæði bleikjuseiði og kynþroska smábleikjur, sem bendir til hrygningar á því svæði.

Vatnalíf á Ófeigsfjarðarheiði

Ófeigsfjarðarheiði 2017- rannsókn í ám og vötnum

Rannsóknarleyfi

Orkustofnun veitti VesturVerki ehf. rannsóknarleyfi vegna áætlana um virkjun Hvalár og Rjúkanda í einu þrepi úr Hvalárvatni að sjávarmáli við Ófeigsfjörð í Árneshreppi. Leyfið gilti frá 31. mars 2015 til 31. mars 2017. Rannsóknarleyfið var síðar framlengt til 31. mars 2019. Nú hefur Orkustofnun, að beiðni VesturVerks, framlengt rannsóknarleyfið að nýju til 31. mars 2021.

Rannsóknarleyfið má finna hér.

Framlenging á rannsóknarleyfi má finna hér.

Framlenging á rannsóknarleyfi dags. 7. janúar 2019 má finna hér.