Hvanneyrardalur

Gert er ráð fyrir að Hvanneyrardalsvirkjun rísi í botni Ísafjarðar við Ísafjarðardjúp í minni Hvanneyrardals og Torfdals. Virkjunarsvæðið hefur verið rannsakað að einhverju leyti af hálfu Orkustofnunar vegna Glámuvirkjunar. Uppsett afl virkjunarinnar er áætlað um 11MW og orkuvinnslugeta 80 GWh/ári. Að óbreyttu er Hvanneyrardalsvirkjun af þeirri stærðargráðu að hún mun þurfa að fara fyrir rammaáætlun IIII.

Frumdrög virkjunar kynnt Súðavíkurhreppi

Frumdrög virkjunar í Hvanneyrardal voru send til kynningar í Súðavíkurhreppi í febrúar 2018 í tengslum við endurskoðun aðalskipulags hreppsins. Í drögunum fylgdi stutt lýsing:

,,Með virkjuninni er gert ráð fyrir að virkja aðrennslissvæði Hvanneyrardalsvatns og Miðdalsvatns á vatnasviði Ísafjarðar með niðurgrafinni þrýstipípu og ofanjarðarstöðvarhúsi í botni Ísafjarðar, á eystri bakka árinnar skammt ofan ármóta við Torfadalsá, þar sem áin er í um 40 m y.s.

Til viðbótar yrði veitt til Miðdalsvatns með skurðum úr vötnum sunnan þess. Einnig er hugsanlegt að veita til vatnsins frá Tröllárvatni á vatnasviði Vattardalsár. Það verður þó varla gert með öðru en um 1,7 km löngum jarðgöngum. Göngin yrðu lágmarksgöng um 16 m2 ef þau yrðu gerð með hefðbundnum hætti en hugsanlega mætti heilbora mun þrengri göng þarna á milli. Einnig yrði þá veitt vatni til Tröllárvatnsins úr vötnum þar fyrir austan sem eru á vatnasviði Skálmardalsár. Til þess þarf eingöngu litla skurði og fyrirstöðu.

Aðstæður til að miðla vatni virðast hvergi mjög góðar. Líklegast er að gerðar verði miðlanir í flestum eða öllum þessum vötnum, Hvanneyrardalsvatni, Miðdalsvatni, Tröllárvatni, vatni í 482 m y.s. ofan Hvanneyrardalsvatns og vatni í 584 m y.s. sem á gömlum kortum Orkustofnunar var nefnt Nýrnavötn. Stærð miðlana eða magn stífluefna liggur ekki fyrir á þessu stigi.

Virkjað yrði úr Miðdalsvatni með 5,6 km langri þrýstipípu að mestu úr trefjaplasti. Síðan yrði 1,3 km leggur þrýstipípu að Hvanneyrardalsvatni og inntök í báðum vötnunum. Pípan yrði niðurgrafin og lægi út fjallið milli Miðdals og Torfdals, og síðan niður hlíðina að Ísafjarárá þar sem hún er í um 40 m y.s. Einnig kæmi til greina að fara með pípuna niður fjallsranann milli Hvanneyrardalsár og Miðdalsár. Þá yrði pípan styttri en fallhæðin minni þar sem bakvatnið yrði þá í um 100 m y.s.

Gert er ráð fyrir að meðalafrennsli af vatnasviðunum sem nýtt yrðu sé um 80 l/s/km2. Rennsli til virkjunarinnar er þá eins og fram kemur hér að neðan.

Vatnasvið Hvanneyrardalsár 24,3 km2 1,94 m3/s

Vatnasvið Miðdalsár 3,8 km2 0,30 m3/s

Vatnasvið Vattardalsár 4,7 km2 0,38 m3/s

Vatnasvið Skálmardalsár 2,2 km2 0,18 m3/s

Samtals 35,0 km2 2,80 m3/s

Orkustuðull yrði um 1,03 GWh/Gl og rennslisorkan því um 90 GWh/a og líkleg orkuframleiðsla um 80 GWh/a. Miðað við 7000 h nýtingu yrði uppsett afl um 11 MW og virkjað rennsli 3,1 m3/s.

Eins og sést á teikningunni er slóð upp Miðdal langleiðina að Miðdalsvatni, sem væntanlega yrði gerð að varanlegum aðkomuvegi upp á hálendið.

Helstu kennistærðir virkjunar eru því eftirfarandi:

Vatnasvið á vatnasviði 35,0 km2

Aðrennsli samtals 2,8 m3/s.

Nýtanleg miðlun óviss

Stíflurúmmál óvisst

Lengd veituganga 1,7 km

Lengd Þrýstipípu (5,6+1,3 km) 7,0 km

Þvermál þrýstipípu 1,2 m

Falltöp við fullt álag 17 m

Yfirvatn ~476 m y.s.

Bakvatn 40 m y.s.

Virkjað rennsli 3,1 m3/s

Orkustuðull 1,03 GWh/Gl

Uppsetta afl ( 6 stúta Pelton vél) 11 MW

Orkuframleiðsla 80 GWh/a

Orkukostnaður er ekki ljós en ræðst mikið af möguleikum til að miðla vatni á svæðinu."

Tenging virkjunar

Tenging virkjunarinnar yrði að öllum líkindum að nýjum afhendingarstað (tengipunkti) raforku í Ísafjarðardjúpi.

Rannsóknir

Vesturverk hóf rannsóknir á Hvanneyrardalsvirkjun í samstarfi við verkfræðistofuna Mannvit sumarið 2016 með uppsetningu þriggja sírita á vatnasviði virkjunarinnar. Tilgangur rannsóknanna er að afla gagna fyrir rammaáætlun IIII en að óbreyttu er virkjunin af þeirri stærðargráðu að hún fer fyrir rammaáætlun.

Rannsóknarleyfi

Rannsóknarleyfi VesturVerks vegna Hvanneyrardalsvirkjunar gilti frá 15. mars 2016 til 14. mars 2019. Leyfið fékkst framlengt um miðjan mars 2019 og gildir til 31. desember 2025.

Yfirlitsmynd sem sýnir frumdrög virkjunar í Hvanneyrardal. Mynd: Verkís.
Yfirlitsmynd sem sýnir frumdrög virkjunar í Hvanneyrardal. Mynd: Verkís.