Skipulag

Allar framkvæmdir eiga að vera í samræmi við skipulag. Í sumum tilvikum er hægt að veita leyfi til framkvæmda á grundvelli aðalskipulags en í flestum tilvikum er það veitt á grundvelli deiliskipulags.

Skipulag er formleg áætlun sveitarstjórnar um nýtingu lands og mótun umhverfis. Skipulagi er ætlað að tryggja að landið sé nýtt á hagkvæman hátt með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Skipulagsáætlunum sveitarfélaga er skipt í þrjú stig:

  • Svæðisskipulag– samræmd stefna fleiri en eins sveitarfélags
  • Aðalskipulag – stefna sveitarfélags um notkun alls lands innan sveitarfélagsins
  • Deiliskipulag – nánari stefna fyrir afmarkað svæði

Þegar skipulag felur í sér framkvæmdir sem eru líklegar til að hafa áhrif á umhverfið þarf að meta áhrif þess í svokölluðu umhverfismati áætlana.

Allt skipulag þarf að vera í samræmi við landsskipulagsstefnu sem er stefna ríkisins í skipulagsmálum. Deiliskipulag þarf að vera í samræmi við aðalskipulag sem aftur þarf að vera í samræmi við svæðisskipulag ef það liggur fyrir. Sveitarfélögum er ekki skylt að gera svæðisskipulag.

Aðalskipulag og svæðisskipulag hefur ákveðinn gildistíma sem er almennt um 12-20 ár. Þegar líður á gildistímann er skipulagið endurskoðað í heild sinni. Ef nýjar áherslur eða hugmyndir koma fram er þó alltaf hægt að endurskoða viðkomandi þátt skipulagsins og breyta því. Slíkar breytingar eru kynntar fyrir almenningi og stofnunum áður en þær taka gildi.

Deiliskipulag hefur ekki ákveðinn gildistíma, en því er hægt að breyta á sama hátt og aðalskipulagi.

Sveitarstjórn ber alltaf ábyrgð á öllu skipulagi innan sveitarfélagsmarka, nema í sérstökum tilvikum þar sem ríkið ber ábyrgðina.

Eftirfarandi myndir sýna ferlið við gerð aðal- og deiliskipulags:
Tímalína aðalskipulags.
Tímalína aðalskipulags.
Tímalína deiliskipulags.
Tímalína deiliskipulags.

Aðalskipulag

Hvalárvirkjun er í Árneshreppi á Ströndum. Í Aðalskipulagi Árneshrepps 2005-2025, sem tók gildi í febrúar 2014, er gert ráð fyrir virkjuninni með þremur uppistöðulónum, þ.e. Hvalárlóni, Vatnalautalóni og Eyvindarfjarðarlóni. Einnig er gert ráð fyrir aðveitugöngum í Strandarfjalli og stöðvarhúsi neðan þess, ofan við Hvalárfoss. Í greinargerð aðalskipulagsins er fjallað um vinnuvegi og efnistöku vegna virkjunarinnar en þessir þættir ekki sýndir á uppdrættinum. Aðalskipulagið gerir einnig ráð fyrir íbúðum neðan Strandarfjalls.

Þegar aðalskipulagið var staðfest var hönnun Hvalárvirkjunar ekki lokið. Til að skerpa á áherslum aðalskipulagsins var því ákveðið að vinna breytingu á aðalskipulaginu sem sýndi virkjunina með nákvæmari hætti.

Í fyrstu var áætlað að breyta skipulaginu fyrir virkjunina í heild og var skipulags- og matslýsing þess efnis auglýst í desember 2016.

Skipulags og matslýsing

Þegar eiginleg vinna við skipulagsbreytinguna hófst kom í ljós að ýmsa þætti þyrfti að rannsaka betur. Drög að breytingu á aðalskipulaginu var til sýnis í Kaupfélagshúsinu í Norðurfirði þann í apríl 2017.

Drög að aðalskipulagsbreytingu - uppdráttur

Drög að aðalskipulagsbreytingu - greinargerð

Eftir að Skipulagsstofnun hafði farið yfir drögin að aðalskipulagbreytingunni samþykkti hreppsnefnd Árneshrepps að auglýsa tillöguna. Tillagan var auglýst í september til 16. október 2017.

Í breytingartillögunni fólst m.a:.

• Iðnaðarsvæði fært til og heimild fyrir starfsmannabúðum bætt við.

• Íbúðarsvæði innan virkjunarsvæðisins fellt út.

• Vegir um virkjunarsvæðið skilgreindir.

• Efnistökusvæði skilgreind við Hvalárósa, í Hvalá og við Hvalaárvatn.

Öðrum þáttum aðalskipulagsbreytingarinnar sem tilgreindir voru auglýstri lýsingu er frestað.

Tillaga að aðalskipulagsbreytingu - uppdráttur

Tillaga að aðalskipulagsbreytingu - greinargerð

Umsagnir og athugasemdir bárust frá alls 27 aðilum, þ.e. 12 frá umsagnaraðilum og 15 frá almenningi og samtökum. Umsagnir og athugasemdir.


Unnið er að frágangi aðalskipulagsbreytingarinnar í samræmi við framkomnar umsagnir og athugasemdir. Þegar því er lokið mun hreppsnefnd Árneshrepps fjalla um tillöguna ásamt umsögnum og athugasemdum. Ef nefndin samþykkir tillöguna sendir hún hana til Skipulagsstofnunar. Stofnunin fer yfir hvort tillagan og málsmeðferð eru í samræmi við lög og hvort tekið hafi verið mið af umsögnum og athugasemdum sem við eiga. Eftir þá yfirferð staðfestir Skipulagsstofnun aðalskipulagsbreytinguna og staðfeting hennar er auglýst opinberlega. Þar með tekur aðalskipulagsbreytinging gildi.


Deiliskipulag

Ekkert deiliskipulag er í gildi í Árneshreppi, en framkvæmdir þurfa að vera í samræmi við skipulag. Í deiliskipulagi eru settir skilmálar um lóðir og almannarými, stærðir, staðsetningu og notkun húsa, sem og útfærslu og hönnun bygginga og efnisnotkun. Byggingar- og framkvæmdaleyfi skulu vera í samræmi við deiliskipulag.

Í fyrstu var áætlað að vinna deiliskipulag fyrir Hvalárvirkjun í heild og var skipulags- og matslýsing þess efnis auglýst í desember 2016. Lýsingin er sameiginleg fyrir bæði aðal- og deiliskipulagið.

Skipulags- og matslýsing


Þegar ákveðið var að vinna einungis tillögu að breyttu aðalskipulagi fyrir þá þætti sem þörf er á vegna frekari rannsókna gilti það sama um deiliskipulagið. Því var einungis unnið deiliskipulag fyrir þann hluta framkvæmdarinnar sem aðalskipulagsbreytingin tekur til. Þegar frekari gögn liggja fyrir verður lokið við að gera nauðsynlegar breytingar á aðalskipulaginu og um leið unnið deiliskipulag fyrir allt virkjunarsvæðið.

Tillaga að deiliskipulagi var auglýst í september 2017 og lá frammi til kynningar fyrir almenning. Einnig var hún send Skipulagstofnun og fleiri opinberum aðilum til umsagnar. Frestur var til 16. október til að skila inn athugsemdum og umsögnum.


Deiliskipulagstillaga - uppdráttur 1

Deiliskipulagstillaga - uppdráttur 2

Deiliskipulagstillaga - uppdráttur 3

Deiliskipulagstillaga - uppdráttur 4

Deiliskipulagstillaga - uppdráttur 5

Deiliskipulagstillaga - greinargerð


Umsagnir og athugasemdir bárust frá alls 21 aðila, þ.e. 12 frá umsagnaraðilum og 9 frá almenningi og samtökum.

Tenglar á athugasemdir

Unnið er að frágangi deiliskipulagstillögunnar í samræmi við framkomnar umsagnir og athugasemdir. Þegar því er lokið mun hreppsnefnd Árneshrepps fjalla um skipulagstillöguna ásamt umsögnum og athugasemdum. Ef nefndin samþykkir tillöguna sendir hún hana til Skipulagsstofnunar. Stofnunin fer yfir hvort tillagan og málsmeðferð eru í samræmi við lög og hvort tekið hafi verið mið af umsögnum og athugasemdum sem við eiga.

Þegar gengið hefur verið frá deiliskipulagstillögunni eftir yfirferð Skipulagsstofnunar, er samþykkt hennar auglýst opinberlega. Þar með tekur deiliskipulagið gildi og sveitarstjórn getur gefið út framkvæmdaleyfi og byggingarleyfi.