Um Vesturverk

VesturVerk ehf er orkufyrirtæki á Ísafirði sem vinnur að undirbúningi virkjunar Hvalár í Ófeigsfirði á Ströndum. Einnig er VesturVerk með í undirbúningi þrjár aðrar virkjanir við Ísafjarðardjúp en þær eru Skúfnavatnavirkjun, Hvanneyrardalsvirkjun og Hest- og Skötufjarðarvirkjun.

Eigendur VesturVerks eru HS-Orka og Gláma fjárfestingar slhf en eigendur Glámu eru Gunnar Gaukur Magnússon, Valdimar Steinþórsson og Hallvarður E. Aspelund. VesturVerk hefur gert samning til 60 ára við alla landeigendur í Ófeigsfirði um nýtingu vatnsréttinda til virkjunar Hvalár, Rjúkanda og Eyvindarfjarðarár. Auk þess eru Gunnar, Valdimar og Hallvarður í eigendahópi jarðarinnar Ófeigsfjörður.

Hvalárvirkjun er í rammaáætlun ríkisstjórnarinnar um nýtingu orkuauðlinda Íslands. Áætluð stærð Hvalárvirkjunar er um 55 MW í uppsettu afli með 5.818 klst. nýtingartíma á ári og orkugetu upp á 330 Gwh á ári. Með tengingu til Ísafjarðar er Hvalárvirkjun talin sá virkjunarkostur á Vestfjörðum sem tryggir orkuöryggi Vestfirðinga best.