Beðið niðurstöðu Skipulagsstofnunar

28/02/2018

Allt að mánuður getur nú liðið þar til Skipulagsstofnun afgreiðir þær breytingar á aðal- og deiliskipulagi Árneshrepps sem meirihluti hreppsnefndar samþykkti í lok janúar. Rökstuðningur hreppsins var sendur stofnuninni 2. mars s.l.. Breytingarnar eru undanfari þess að hreppsnefnd geti veitt VesturVerki framkvæmdaleyfi til frekari undirbúnings Hvalárvirkjunar á Ströndum.

Um er að ræða fyrri hluta skipulagstillagna, sem unnar voru af Verkís fyrir hönd VesturVerks, en þær gera fyrirtækinu kleift að fara í veglagningu, efnistöku og uppsetningu vinnubúða í tengslum við fyrirhugaðar berg- og jarðvegsrannsóknir á Hvalársvæðinu.

Byggingafulltrúi Árneshrepps hefur nú sent rökstuðning fyrir ákvörðun hreppsnefndar frá því í janúar til Skipulagsstofnunar, sem hefur fjórar vikur til að staðfesta skipulagstillöguna og birta staðfestinguna í Stjórnartíðindum. Skipulagsstofnun hefur heimild til synjunar eða frestunar á gildistöku skipulagsins en þarf þá að gera umhverfisráðherra sérstaklega grein fyrir þeirri ákvörðun. Ekki er hægt að gefa út framkvæmdaleyfi fyrr en staðfesting Skipulagsstofnunar hefur birst í Stjórnartíðindum.

Hvalárvirkjun á aðalskipulagi frá 2014

Hvalárvirkjun hefur verið á skipulagi Árneshrepps frá því að umhverfis- og auðlindaráðherra staðfesti nýtt aðalskipulag fyrir hreppinn í lok janúar árið 2014. Það skipulag gildir til ársins 2025. Hreppsnefnd Árneshrepps hafði þó allt frá árinu 2010 unnið að undirbúningi þess að virkjunin færi inn í skipulag.

Mat á umhverfisáhrifum Hvalárvirkjunar var unnið af Verkís fyrir hönd VesturVerks á árunum 2015-2016 og matsskýrslan lögð fram í nóvember 2016. Í viðauka með skýrslunni fylgdu álit lögbundinna umsagnaraðilar um matsskýrsluna sem voru: Árneshreppur, Ferðamálastofa, Fiskistofa, Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða, Minjastofnun, Náttúrufræðistofnun, Orkustofnun og Umhverfisstofnun. Einnig bárust athugasemdir frá Landvernd.

Í aprílbyrjun 2017 lá álit Skipulagsstofnunar á matsskýrslunni fyrir og var það kynnt á vefsíðu stofnunarinnar ásamt matsskýrslunni.

Haustið 2016, um svipað leyti og matsskýrslan var lögð fram, heimilaði hreppsnefnd Árneshrepps VesturVerki að láta vinna breytingar á aðalskipulagi með hliðsjón af Hvalárvirkjun ásamt því að vinna nýtt deiliskipulag í samræmi við skipulags- og matslýsingu. Þessar breytingar voru nauðsynlegar þar sem í aðalskipulaginu frá 2014 var ekki að finna nákvæmar útfærslur á framkvæmdinni auk þess sem ekkert deiliskipulag var í gildi fyrir svæðið og því þurfti að vinna það frá grunni.

Ákveðið var að skipta breytingartillögum VesturVerks í tvennt svo hægt yrði að fara í ýmsar nauðsynlegar rannsóknir sem fyrst. Fyrri hlutinn var kynntur á vinnslustigi í apríl 2017, bæði fyrir hreppsnefnd og á opnu húsi. Unnið var úr þeim athugasemdum sem bárust og fullunnar breytingartillögur að skipulagi sendar Árneshreppi laust fyrir jól 2017. Þær voru svo samþykktar á fundi hreppsnefndar þann 30. janúar s.l.

Næstu skref

Um leið og staðfesting Skipulagsstofnunar á deiliskipulaginu og breytingum á aðalskipulaginu liggur fyrir mun VesturVerk senda inn umsókn til hreppsins um framkvæmdaleyfi. Samhliða því verður unnið að seinni hluta tillögu að skipulagsbreytingum en hún snýr að virkjunarframkvæmdunum sjálfum ásamt frekari veglagningum, hlaðhúsi og gestastofu. Seinni hlutinn fer í sama farveg og fyrri hlutinn; tillagan á vinnslustigi verður send hreppsnefnd og kynnt á opnu húsi eða kynningarfundi, væntanlega nú á vordögum. Í kjölfarið berast athugasemdir sem tekið verður tillit til við fullnaðarfrágang tillögunnar. Að því búnu er tillagan send til hreppsnefndar Árneshrepps til afgreiðslu. Verði hún samþykkt fer tillagan að lokum til Skipulagsstofnunar til staðfestingar líkt og fyrri hlutinn.

Það er því ljóst að nokkur tími mun líða þar til fyrir liggur hvort og þá hvenær framkvæmdir við Hvalárvirkjun sjálfa geta hafist. Ef allt skipulagsferlið gengur að óskum VesturVerks gætu rannóknir hafist í sumar og vega-og byggingaframkvæmdir fljótlega í framhaldi af því. Áætlað er að fjögur ár líði frá upphafi framkvæmda þar til hægt verður að hefja raforkuframleiðslu í virkjuninni og fimm ár þar til öllum framkvæmdum lýkur.

Hér má sjá tímalínu sem sýnir hefðbundið ferli við breytingu á aðalskipulagi. Stjörnurnar sýna hvar komið hefur til afgreiðslu hreppsnefndar í ferlinu. Mynd: Verkís
Hér má sjá tímalínu sem sýnir hefðbundið ferli við breytingu á aðalskipulagi. Stjörnurnar sýna hvar komið hefur til afgreiðslu hreppsnefndar í ferlinu. Mynd: Verkís
Ítarlegt yfirlitskort yfir virkjunarsvæði Hvalár þar sem sjá má öll helstu mannvirki, s.s. stöðvarhús, skurði, stíflur, vinnuvegi og lón. Mynd: Verkís.
Ítarlegt yfirlitskort yfir virkjunarsvæði Hvalár þar sem sjá má öll helstu mannvirki, s.s. stöðvarhús, skurði, stíflur, vinnuvegi og lón. Mynd: Verkís.