Beittur jólapistill orkumálastjóra

20/12/2018

Skaðsemi tilefnislausra kærumála, mótsagnakenndur málflutningur náttúruverndarsinna og þriðji orkupakkinn er meðal þess sem Guðni A. Jóhannesson, orkumálastjóri, tók fyrir í árlega jólaávarpi sínu til starfsmanna Orkustofnunar. Ávarpið í heild má lesa hér en það var birt á vefsíðu Orkustofnunar á þriðjudag.

Tilefnislausar kærur

Orkumálastjóri var beittur í máli og fjallaði sérstaklega um það tjón sem tilefnislausar kærur geta haft í för með sér í stórum verkefnum. Hann vísaði í máli sínu í nýlega íslenska kvikmynd „Kona fer í stríð“ en í henni eru skemmdarverk m.a. unnin á innviðum í orkugeiranum: „Það efnahagslega tjón fyrir framkvæmdaaðilann sem hægt er að valda með skemmdarverkum á mannvirkjum og búnaði eru hreinir smámunir miðað við það fjárhagslega tjón sem hægt er að valda með því að leggja fram tilefnislausar kærur vegna verkefna sem eru að nálgast framkvæmdastigið og skapa þannig tafir og óvissu um áframhaldið, sem getur haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar t.d. fyrir fjármögnun verkefnisins.

Vanhugsaðar réttarbætur

Guðni heldur áfram á þessum nótum og segir: „Þær réttarbætur sem voru innleiddar til þess að veita almenningi aðkomu að ákvörðunum um framkvæmdir voru einfaldlega vanhugsaðar þannig að kæruheimildir liggja alltof aftarlega í ferlinu. Það þýðir annars vegar að samfélagslegur kostnaður vegna þeirra tafa og breytinga sem kærur geta leitt til verður mjög hár, eins og nýlegt dæmi vegna laxeldis á Vestfjörðum sýnir okkur, og hins vegar að góðar ábendingar koma í alltof mörgum tilfellum of seint fram til þess að geta haft áhrif á verkið nema til þess að tefja framkvæmd þess.“

Ísland nú þegar hluti af evrópskum raforkumarkaði

Um þriðja orkupakkann hafði Guðni m.a. þetta fram að færa: „Það er rangt, sem haldið hefur verið fram, að rafmagnsframleiðsla okkar sé ótengd Evrópu. Við erum í samkeppni við önnur Evrópulönd um fjárfestingar í nýjum orkukrefjandi iðnaði og vörur sem eru framleiddar með íslenskri raforku fara inn á Evrópumarkaðinn í skjóli þeirra tollafríðinda sem við njótum innan EES. Þess vegna fylgist Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, grannt með fjárfestingum í virkjunum og flutningsvirkjum til þess að tryggja að einstök fyrirtæki séu ekki að fá óeðlilegar ívilnanir og fyrirgreiðslu sem líta má á sem ríkisstyrk. Meðan við viljum eiga þennan aðgang að mörkuðum Evrópusambandsins verður viðskiptalegt umhverfi á Íslandi að vera sambærilegt við það sem gildir í aðildarlöndunum. Það gildir líka um framleiðslu, sölu, flutning og dreifingu á raforku.“

Skotglaðir náttúruverndarsinnar

Undir lok jólaávarpsins fjallar Guðni svo um það ósamræmi sem finna má í málflutningi þeirra sem tala öðrum þræði um sjálfbæra þróun en ráðast í hinu orðinu á nýtingu vistvænna orkulinda: „Ég á persónulega svolítið erfitt með að hlusta á forsvarsmenn samtaka sem kenna sig við náttúruvernd og sjálfbæra þróun lýsa vanþóknun sinni á framtaksleysi ráðamanna til þess að sporna við hnattrænni hlýnun og skemmta sér þess á milli undantekningalítið við að skjóta á allt sem hreyfist í átt að aukinni nýtingu vistvænna orkulinda á Íslandi.“

Guðni A. Jóhannesson, orkumálastjóri. Ljósmynd: HAG/Viðskiptablaðið
Guðni A. Jóhannesson, orkumálastjóri. Ljósmynd: HAG/Viðskiptablaðið