Deiliskipulag auglýst í annað sinn

15/11/2018

Hreppsnefnd Árneshrepps hefur nú auglýst að nýju tillögu að deiliskipulagi sem tengist undirbúningsframkvæmdum vegna Hvalárvirkjunar. Skipulagið er til kynningar í sex vikur.

Dráttur á vinnslu málsins hjá Árneshreppi í haust varð til þess að fyrri auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins birtist tveimur dögum of seint. Deiliskipulagið taldist þá ógilt þar sem það var ekki auglýst innan árs frá því að fyrri athugasemdafrestur rann út í október 2017.

Undirbúningsframkvæmdir

Tillagan sem nú er auglýst öðru sinni er óbreytt frá því að hreppsnefnd samþykkti hana í lok september s.l. Í henni felst m.a. afmörkun tímabundinnar lóðar og byggingarreits fyrir starfsmannabúðir og vinnusvæði, afmörkun og umfang efnistökusvæða ásamt vegum innan svæðisins og tenging við þjóðveginn í Ófeigsfirði. Veglagning áleiðis upp á Ófeigsfjarðarheiði er nauðsynleg svo hægt sé að taka kjarnasýni úr jarðlögum til rannsókna og huga að frekari undirbúningi jarðgangagerðar vegna virkjunarinnar.

Unnið að seinni hluta skipulagsbreytinga

Samhliða því að auglýsa deiliskipulagið að nýju er unnið að gerð seinni hluta tillagna um breytingar á aðalskipulagi og deiliskipulagi Árneshrepps. Stefnt er að því að þær tillögur fari í kynningu fljótlega á nýju ári. Of snemmt er að segja til um hvenær þær gætu hlotið endanlega afgreiðslu hreppsnefndar.

Í seinni hluta skipulagstillagnanna er gert ráð fyrir nýjum vegi af Eyrarhálsi áleiðis niður í Ingólfsfjörð ásamt nýjum vegi frá Húsa að Hvalá. Breyting er gerð á legu háspennulínu/jarðstrengs frá því sem er á gildandi aðalskipulagi og áætlað að hann liggi yfir Ófeigsfjarðarheiði áleiðis yfir í Ísafjarðardjúp. Í deiliskipulagstillögunum er auk þessa gerð nánari grein fyrir staðsetningu stíflna og annarra mannvirkja tengdum Hvalárvirkjun.

Ef allt gengur samkvæmt áætlun geta undirbúningsframkvæmdir vegna Hvalárvirkjunar hafist snemma vors 2019.

Hægt er að skoða nánar skipulagsuppdrættina og deiliskipulagstillöguna á vefsíðu Árneshrepps.

Sýnishorn af deiliskipulagsuppdráttunum sem nú eru til kynningar hjá Árneshreppi vegna undirbúningsframkvæmda við Hvalárvirkjun. Mynd: Verkís.
Sýnishorn af deiliskipulagsuppdráttunum sem nú eru til kynningar hjá Árneshreppi vegna undirbúningsframkvæmda við Hvalárvirkjun. Mynd: Verkís.