Framkvæmdum lokið að sinni

10/09/2019

Vegaframkvæmdum VesturVerks á Ófeigsfjarðarvegi í Árneshreppi vegna undirbúnings Hvalárvirkjunar er nú lokið að sinni og bíða frekari framkvæmdir þess að vori á ný. Vinnuvélar og tæki voru öll flutt af svæðinu í dag en síðustu daga hefur verið unnið að því að bera efni í einstaka kafla vegarins og ganga vel frá í kringum vegstæðið. Mikil vatnsveður hafa verið fyrir norðan undanfarnar vikur og var aurbleytan orðin verktökum erfið viðureignar.

Búið í haginn fyrir rannsóknir

Vegbæturnar á Ófeigsfjarðarvegi í sumar eru liður í því að búa í haginn fyrir undirbúningsrannsóknir sem fram eiga að fara næsta sumar. Rannsóknirnar felast einkum í því að bora eftir kjarnasýnum á Ófeigsfjarðarheiði, m.a. í þeim tilgangi að undirbúa hönnunar og útboðsgögn vegna virkjunarinnar. Flytja þarf bora og annan búnað landleiðina í Ófeigsfjörð og að óbreyttu hefði vegurinn verið farartálmi. Einnig þarf að brúa Hvalá, og er brúin þegar komin til landsins, en framkvæmdum verður frestað til næsta vors ásamt vegagerð um Seljanes.

Mun greiðfærari vegur

Óhætt er að fullyrða að Ófeigsfjarðarvegur er nú mun greiðfærari en áður. Erfiðar beygjur hafa verið lagfærðar og allmörg smærri ræsi hafa verið sett í veginn auk þess sem stór ræsi voru sett í veginn við Seljadalsá í Ingólfsfirði og Sírá í Ófeigsfirði. Gengu framkvæmdir allar samkvæmt áætlun ef frá er talinn kaflinn um Seljanes, sem ákveðið var að bíða með um sinn m.a. vegna andstöðu hluta landeigenda við vegbæturnar.

Á meðfylgjandi myndum má sjá hvernig vegurinn liggur nú við Sírá í Ófeigsfirði en þar má segja að mesta jarðrask sumarsins hafi orðið. Sá kafli gat áður orðið verulegur farartálmi í miklum leysingum. Ætla má að svæðið í vegstæðinu grói vel upp strax næsta sumar. Einnig má sjá hvernig jarðvegi hefur verið jafnað yfir gamla vegkaflann við Sírá svo hann nái að gróa hratt og vel.

Ófeigsfjarðarvegur við Sírá. Ætla má að jarðvegurinn í vegstæðinu grói vel upp strax næsta sumar.
Ófeigsfjarðarvegur við Sírá. Ætla má að jarðvegurinn í vegstæðinu grói vel upp strax næsta sumar.
Séð úr botni Ófeigsfjarðar yfir að Sírá og vegbótunum við ána.
Séð úr botni Ófeigsfjarðar yfir að Sírá og vegbótunum við ána.
Jarðvegi hefur verið jafnað yfir gamla vegkaflann við Sírá svo hann nái að gróa hratt og vel.
Jarðvegi hefur verið jafnað yfir gamla vegkaflann við Sírá svo hann nái að gróa hratt og vel.