Hvalárvirkjun mun umbylta raforkukerfi Vestfjarða

6/04/2018

„Hvalárvirkjun hefur mikil áhrif á raforkukerfið á Vestfjarðarkjálkanum. Í raun má segja að virkjunin umbylti kerfinu, því með henni kemur mikil orkuframleiðsla inn á það innan Vestfjarða. Í fyrsta lagi mun virkjunin væntanlega leiða af sér þriggja fasa rafmagn og tvöfalda tengingu í Árneshreppi. Ennfremur verður Vestfjarðakjálkinn nettó úflytjandi raforku en ekki innflytjandi.“

Þetta er meðal helstu niðurstaðna í nýrri skýrslu Rannsóknastofnunar Háskólans á Akureyri um mat á samfélagsáhrifum Hvalárvirkjunar á Vestfirði. Áður hafði RHA gefið út sambærilega skýrslu um mat á samfélagsáhrifum virkjunarinnar í Árneshreppi. Skýrslurnar eru báðar unnar að beiðni VesturVerks.

Tvöföld tenging viðráðanlegra verkefni

Áfram segir í niðurstöðum: „Mestu áhrif virkjunarinnar á raforkukerfið á Vestfjarðakjálkanum eru líklega þau að verkefnið, sem felst í því að koma á tvöfaldri tengingu (innskot: svokölluð hringtenging) í flutningskerfinu í öllum landshlutanum, verður viðráðanlegt. Einungis þarf eina línu til viðbótar til að næstum allt flutningskerfið verði með tvöfalda tengingu. Sterkasta lokaskrefið væri lína innst úr Ísafjarðardjúp út til Ísafjarðar eða í Breiðadal í Önundarfirði. Án Hvalárvirkjunar er tvöföld tenging raforkukerfisins á Vestfjarðakjálkanum mjög stórt verkefni.“

Slakt afhendingaröryggi raforku

Í skýrslunni er dregin upp mynd af stöðu raforkumála á Vestfjörðum í dag: „Vestfjarðakjálkinn er ekki sjálfum sér nógur í raforku, hann þarf að fá rafmagn utan að af landsnetinu. Það er flutt með Vesturlínu úr Hrútatungu í Mjólká sem er einföld tenging og gerir það að verkum að afhendingaröryggi er slakt í landshlutanum. Út frá Vesturlínu eru einnig einfaldar tengingar svo sem til Stranda, norðanverðra Vestfjarða og sunnanverðra Vestfjarða. Það er því býsna langt frá því að afhendingaröryggið sem kallast N-1 sé á Vestfjarðakjálkanum. N-1 þýðir að einhver ein lína megi rofna án þess að það hafi áhrif á afhendingu.“

„Kerfið eins og það er heftir atvinnulíf og framþróun“

Áfram segir í skýrslunni: „Mikill munur er á raforkunotkun eftir árstíðum vegna húshitunar með rafmagni. Til að bæta afhendingaröryggi hafa verið settar upp dísel-varaaflstöðvar víða. Sú nýjasta og stærsta er 10 MW og er í Bolungarvík. Stöðin bætti ástandið mikið, sérstaklega á norðanverðum Vestfjörðum. Raforkukerfi sem treystir á díselvélar er hins vegar ekki kerfi til framtíðar og það er ekki í stakk búið að taka við mikilli viðbótarnotkun rafmagns. Kerfið eins og það er heftir því atvinnulíf og sérstaklega framþróun þess. Því er ljóst að bæta þarf bæði flutningskerfið og dreifikerfið á Vestfjarðarkjálkanum öllum."

Bent er á að fiskeldi sé helsta vaxtargrein atvinnulífsins, einkum á sunnanverðum Vestfjörðum, á síðustu árum enda náttúrulegar aðstæður góðar. „Ferðaþjónusta hefur aukist mikið. Kalkþörungaverksmiðja hefur risið á Bíldudal og önnur áformuð í Súðavík. Staða innviða, einkum vegakerfis og raforkukerfis hefur verið mikil áskorun fyrir þessar atvinnugreinar og gæti hamlað frekari vexti þeirra.“

Vestfirðir verða samkeppnishæfari búsetuvalkostur

Í skýrslunni er dregið fram að á framkvæmdatíma megi búast við tímabundinni fjölgun íbúa í Árneshreppi vegna starfsmanna sem koma til að vinna við framkvæmdirnar. Á Ísafirði megi búast við að verði til sérfræði- og tæknistörf hjá VesturVerki við hönnun og eftirlit. Þá má búast

við að íbúar á nálægum svæðum taki þátt í framkvæmdum.

Skýrsluhöfundar benda á að áhrif á rekstrartíma fyrir íbúaþróun Vestfjarða í heild ráðast mikið af því að hve miklu leyti virkjunin og rafmagn frá henni bætir búsetuskilyrði þar og aðstæður til atvinnureksturs, þ.e. hve mikið raforkuöryggi eykst og möguleikar til að stofna til atvinnureksturs sem reiðir sig á örugga orku og nægilegt framboð af henni. Standi Vestfirðir vel að þessu leyti muni þeir verða samkeppnishæfari sem búsetuvalkostur.

Auknar tekjur og betri innviðir

Eins og fram kom í fyrri skýrslu RHA mun Árneshreppur fá gjöld af fasteignum sem tilheyra virkjuninni á rekstrartíma Hvalárvirkjunar og gætu þau numið 20-30 m.kr. á ári. Ef byggð verða hús yfir spennuvirki í Djúpi og Kollafirði munu fasteignagjöld renna til Strandabyggðar og Reykhólahrepps.

Á rekstrartíma mun innviðauppbygging í Árneshreppi samhliða virkjunarframkvæmdum bæta búsetuskilyrði og aðstæður til að sinna fjölbreyttari störfum. Ný atvinnutækifæri eru meðal forsendna fyrir því að íbúum taki aftur að fjölga á svæðinu, segir í skýrslunni.

Vinnulag við gerð skýrslunnar

Eins og fyrr segir voru skýrslurnar tvær unnar fyrir Vesturverk en þær unnu Jón Þorvaldur Heiðarsson, hagfræðingur og lektor við Háskólann á Akureyri og Hjalti Jóhannesson, sérfræðingur við RHA sem jafnframt var verkefnisstjóri. Lögð var áhersla á að greina áhrif virkjunarinnar jafnt á framkvæmdatíma sem rekstartíma.

Gerð var einföld samfélagsgreining þar sem stöðu helstu þátta samfélagsins var lýst. Byggðist verkefnið einkum á greiningu opinberra hagtalna og opinberum upplýsingum, s.s. frá Hagstofu Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Þjóðskrá. Einnig var byggt á gögnum frá VesturVerki, matsskýrslu, alþjóðlegum leiðbeiningum um mat á samfélagsáhrifum og sérfræðiskýrslum í þeirri umhverfismatsvinnu sem farið hefur fram vegna virkjunarinnar.

Skýrslurnar báðar má nálgast í heild sinni hér:

Mat á samfélagsáhrifum Hvalárvirkjunar á Vestfjörðum

Mat á samfélagsáhrifum Hvalárvirkjunar í Árneshreppi

Í blíðskaparveðri í sundlauginni í Krossnesi við Norðurfjörð. Ljósmynd: Ágúst Atlason.
Í blíðskaparveðri í sundlauginni í Krossnesi við Norðurfjörð. Ljósmynd: Ágúst Atlason.