Dómsmáli hluta Drangavíkureigenda vísað frá

9/01/2020

Héraðsdómur Vestfjarða vísaði í dag frá dómsmáli hluta landeigenda Drangavíkur í Árneshreppi á Ströndum á hendur VesturVerki ehf. og Árneshreppi. Landeigendur höfðuðu mál gegn Vesturverki og Árneshreppi í lok sumars og kröfðust þess að framkvæmdaleyfi Vesturverks, fyrir framkvæmdum á Ófeigsfjarðarheiði vegna Hvalárvirkjunar, yrði fellt úr gildi sem og deiliskipulag vegna framkvæmdanna.

Héraðsdómur telur ósannað að eigendur Drangavíkur eigi það land sem framkvæmdirnar varðar. Ekki sé hægt að miða við önnur landamerki en þau sem hingað til hafa verið talin gilda. Af þeim sökum hafi stefnendur ekki sýnt fram á að þeir eigi lögvarða hagsmuni í málinu á grundvelli eignarréttar að svæðinu.

Dómurinn telur jafnframt að ekki hafi verið sýnt fram á að röskun verði á hagsmunum eigenda Drangavíkur sem réttlætt geti aðild þeirra að málinu. Í úrskurðinum er m.a. bent á að fjarlægð frá framkvæmdum sé talin í kílómetrum og fyrirhugaðar framkvæmdir, sem tekist er á um, séu óverulegar.

Dómurinn dæmdi stefnendur til þess að greiða Árneshreppi og Vesturverki ehf. kr. 600.000,-, hvorum fyrir sig, í málskostnað vegna málsins.

Við Kolbeinsvík í Árneshreppi á Ströndum. Ljósmynd. Kristján Loftur Bjarnason.
Við Kolbeinsvík í Árneshreppi á Ströndum. Ljósmynd. Kristján Loftur Bjarnason.