Hæstiréttur staðfesti í gær niðurstöður Héraðsdóms Reykjavíkur og Landsréttar í máli eigenda jarðarinnar Drangavíkur gegn jarðeigendum Engjaness og Ófeigsfjarðar í Árneshreppi. Eigendur Drangavíkur kröfðust þess að þeim yrði dæmt land ásamt vatnsréttindum við Eyvindarfjarðará en dómurinn féllst ekki á kröfur þeirra.
Niðurstaða dómsins tryggir að VesturVerk getur haldið áfram vinnu við undirbúning Hvalárvirkjunar. Jafnframt getur Landsnet áfram unnið að undirbúningi tengingar virkjunarinnar við meginflutningskerfið í fyllingu tímans.
Hefði dómur fallið stefnendum í vil hefði vatnasvið Hvalárvirkjunar minnkað verulega og haft í för með sér endurskoðun og endurhönnun virkjunarinnar.
Í haust veitti Hreppsnefnd Árneshrepps VesturVerki framkvæmdaleyfi fyrir undirbúningsframkvæmdum virkjunarinnar. Leyfið nær til brúunar Hvalár, vegslóðagerð, lagningar jarðstrengs, jarðvegsrannsókna uppi á Ófeigsfjarðarheiði og lóðarundirbúnings fyrir litlar vinnubúðir. Ef áætlanir ganga eftir er stefnt að því að undirbúningsframkvæmdirnar hefjist næsta vor. Framkvæmdaleyfið er hinsvegar komið í kæruferli og óvíst hvenær niðurstaða fæst úr því.