Orkubúið fjallar um Hvalárvirkjun

23/01/2018

Á vefsíðu Orkubús Vestfjarða er nú að finna ágæta umfjöllun sem ber yfirskriftina ,,Hvalárvirkjun, uppistöðulón og stíflur" Í greininni kemur fram að þegar rætt sé um verklegar framkvæmdir, s.s. virkjanir, vegagerð eða varnarmannvirki, þá eigi almenningur oft erfitt með að átta sig á umfangi viðkomandi mannvirkja í náttúrunni þegar þau eru fullbyggð og búið að ganga frá öllu raski. Enn fremur eigi fólk erfitt með að ímynda sér ásýnd framkvæmdasvæða nokkrum árum eftir lok framkvæmda, t.d. hversu fljótt gróður hefur náð sér á strik og grjót veðrast.

Í ljósi þessa er í greininni leitast við að setja fyrirhugaðar framkvæmdir vegna Hvalárvirkjunar í samhengi við uppbyggingu Þverárvirkjunar í Steingrímsfirði, skammt frá Hólmavík. Um 17 ár eru nú liðin síðan OV endurbyggði stífluna og virkjunina, sem er 2,2 megawött að stærð. Þar er landslagið ekki ósvipað því sem finnst í Ófeigsfirði á Ströndum þar sem Hvalárvirkjun er ætlað að rísa. Landslagið einkennist af ávölum klapparholtum með gróðurþekju á milli hjalla, en ekki háum og bröttum hlíðum eins og er víða annarsstaðar á Vestfjörðum.

Það er Sölvi Sólbergsson, framkvæmdastjóri Orkusviðs OV, sem tekur greinina saman og birtir með henni góðar ljósmyndir til skýringar.