Héraðsdómur Vestfjarða dæmdi í síðustu viku í máli ríkisins gegn landeiganda þar sem tekist var á um náma-, vatns- og jarðhitaréttindi í landi Engjaness í Árneshreppi. Niðurstaða dómsins var sú að ríkið væri eigandi réttindanna samanber afsalsbréf frá árinu 1958. Á jörðinni Engjanesi er eitt af þremur vatnasviðum Hvalárvirkjunar. Dómurinn hefur ekki áhrif á virkjunaráformin.
Stjórnendum VesturVerks varð það ljóst árið 2022 að álitamál væri hver ætti auðlindaréttindi á Engjanesi og verið gæti að ríkið væri réttmætur eigandi þeirra þó svo að þeim réttindum hefði ekki áður verið þinglýst sem eign ríkisins.
Þegar þetta varð ljóst hóf VesturVerk þegar í stað viðræður við ríkið um nýtingarréttinn sem lauk með því að seint á árinu 2023 gaf ríkið út yfirlýsingu þess efnis að það væri tilbúið að ganga inn í samning sem gerður hafði verið við landeiganda um viðkomandi auðlindir og nýtingarréttindi. Á grundvelli yfirlýsingar ríkisins hefur niðurstaðan í héraðsdómi um eignarhald auðlindaréttinda því ekki áhrif á áform VesturVerks um byggingu Hvalárvirkjunar.