"Rafmagnið verður ekki til í snúrunum"

9/07/2018

Ásgeir Margeirsson, stjórnarformaður VesturVerks, var gestur Kristjáns Kristjánssonar í útvarpsþættinum Sprengisandi í gær, sunnudag. Fóru þeir ítarlega yfir flest það sem rætt hefur verið og ritað um fyrirhugaða Hvalárvirkjun.

Skipulagsstofnun staðfesti nýverið breytingar á aðalskipulagi Árneshrepps en breytingarnar gera VesturVerki kleift að hefja undirbúningsframkvæmdir vegna Hvalárvirkjunar. Er staðfestingin mikilvægur áfangi í undirbúningi virkjunarinnar sem nú hefur staðið samfellt í rúman áratug innan þess ramma sem lög og reglur hér á landi segja fyrir um.

Umræðan um Hvalárvirkjun hefur verið mikil síðustu vikur og mánuði. Ýmsum rangindum er haldið fram auk þess sem ný tillaga Náttúrufræðistofnunar Íslands um stækkun friðlands Hornstranda, að því er virðist í þeim tilgangi að koma í veg fyrir virkjanaframkvæmdir á Vestfjörðum, sýnist ekki vera mjög ígrunduð eða byggja á nýjum rannsóknum.

Í ítarlegu og góðu viðtali hjá Kristjáni Kristjánssyni á Sprengisandi Bylgjunnar í gær, sunnudag, svaraði Ásgeir Margeirsson, stjórnarformaður VesturVerks, flestum af þeim vangaveltum og spurningum sem uppi hafa verið síðustu misseri um Hvalárvirkjun. Hér er tengill á þáttinn en viðtalið við Ásgeir hefst á mínútu 41:00 og lýkur á 1:18:00.

Benti Ásgeir m.a. á að rafmagn verður ekki til í snúrunum heldur þarf að búa það til. Orkuspá sýni að fram til 2030 þurfi a.m.k. 150 MW til viðbótar í raforkuframleiðslu þjóðarinnar til að mæta eftirspurn hins almenna markaðar. Ekki er gert ráð fyrir aukinni stóriðju í þeirri spá. Í viðtalinu eru komið inn á gildi rammaáætlunar, umhverfisáhrif virkjunarinnar, orkuöryggi Vestfjarða, dreifikerfi raforku, kostnað við tengingar Hvalárvirkjunar og hvert orkan úr Hvalá verður mögulega seld svo fátt eitt sé nefnt.

Ásgeir Margeirsson, stjórnarformaður VesturVerks, staddur við Hvalá í Ófeigsfirði. Hann var gestur Sprengisands á Bylgjunni í gær, sunnudag.
Ásgeir Margeirsson, stjórnarformaður VesturVerks, staddur við Hvalá í Ófeigsfirði. Hann var gestur Sprengisands á Bylgjunni í gær, sunnudag.