Samfélagsáhrif Hvalárvirkjunar á Árneshrepp

6/03/2018

Með virkjun Hvalár í Ófeigsfirði munu þriggja fasa rafmagn og ljósleiðari komast á í Árneshreppi, annað hvort strax í upphafi framkvæmda eða í upphafi reksturs virkjunarinnar. Tekjur sveitarfélagsins munu aukast verulega á framkvæmdatíma og nokkuð á rekstrartíma auk þess sem ný störf geta orðið til á framkvæmdatíma.

Þetta er meðal helstu niðurstaðna nýrrar skýrslu Rannsóknamiðstöðvar Háskólans á Akureyri (RHA) um mat á samfélagsáhrifum Hvalárvirkjunar á Árneshrepp. Skýrslan er unnin að beiðni VesturVerks. Einnig vinnur RHA að mati á samfélagsáhrifum Hvalárvirkjunar á Vestfirði í heild og er niðurstaðna úr því mati að vænta í lok marsmánaðar.

Gert er ráð fyrir 350 ársverkum við byggingu Hvalárvirkjunar og gæti byggingartíminn staðið í rúm þrjú ár. Reiknað er með að 200 starfsmenn verði við störf á sumrin og um 70 á veturna. Undirbúningsframkvæmdir munu taka allt að tveimur árum og bætist sá tími framan við sjálfan framkvæmdatíma virkjunarinnar.

Hringtenging rafmagns og ljósleiðara

Í upphafskafla skýrslunnar er helstu niðurstöðum gerð skil og þar er fyrst til tekið að með tilkomu Hvalárvirkjunar, sem þarfnast bæði rafmagns og fjarskiptasambands, verði lagt þriggja fasa rafmagn í hreppnum ásamt ljósleiðara, annað hvort við upphaf framkvæmda eða þegar virkjunin kemst í gagnið. Þannig kemst á hringtenging bæði rafmagns og ljósleiðara í hreppnum og má ljóst vera að slíkt eykur verulega búsetuskilyrði í hreppnum til frambúðar. Um er að ræða kostnaðarsamar framkvæmdir sem nauðsynlegt er að ráðast í vegna uppbyggingar og reksturs Hvalárvirkjunar.

Auknar tekjur

Í skýrslunni er einnig dregið fram að með tilkomu Hvalárvirkjunar munu tekjur Árneshrepps aukast á framkvæmdatíma vegna útsvars starfsmanna. Líklegt er að aukalegar heildarútsvarstekjur vegna þessa verði á annað hundrað milljónir króna og hugsanlega hærri. Á rekstartíma virkjunarinnar mun Árneshreppur fá greidd fasteignagjöld af virkjunarmannvirkjum og gætu gjöldin numið 20-30 milljónum króna á ári. Framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga gætu þó lækkað með hærri tekjum hreppsins. Jafnframt er í niðurstöðum dregið fram að á framkvæmdatíma skapist tækifæri á störfum fyrir heimamenn, m.a. sauðfjárbændur. Þar segir að aðgangur að öðrum störfum búi til betri grundvöll fyrir sauðfjárbúskap.

Eins og fram kemur hér að framan er áætlað að 350 ársverk fylgi byggingu Hvalárvirkjunar sjálfrar en skýrsluhöfundar telja að líklega skapist engin störf í hreppnum þegar virkjunin er kominn í fullan rekstur enda verði henni fjarstýrt. VesturVerk vill þó halda því til haga að ýmis verkefni munu alltaf falla til þegar virkjunin er komin í fulla notkun, s.s. vegna eftirlits og smærra viðhalds. Auk þess mun gestastofa, sem VesturVerk fyrirhugar að reisa, skapa störf - ekki síst yfir sumartímann.

Meiri þjónusta

Á framkvæmdatíma er líklegt að mest af þeirri þjónustu, sem framkvæmdirnar kalla á, verði sótt út fyrir Árneshrepp. Má þar nefna aðföng, undirverktöku og ýmsa sérfræðiþjónustu. Þó má búast við aukinni eftirspurn eftir verslun, þjónustu og afþreyingu á staðnum, einkum vegna þeirra starfsmanna sem verða búsettir í hreppnum á framkvæmdatíma. Einnig má gera ráð fyrir viðbótarstarfsmanni skrifstofu Árneshrepps á sama tíma þar sem umsvif í hreppnum munu aukast til mikilla muna. Á rekstrartíma gera skýrsluhöfundar ráð fyrir að áhrif á þjónustu í Árneshreppi vegna virkjunarinnar verði lítil.

Bættar samgöngur

Skýrsluhöfundar telja líklegt að á framkvæmdatíma verði samgöngur til og frá Árneshreppi almennt betri. Strandavegi verði mögulega haldið opnum lengur, flugferðir verði tíðari og nýjum vegi í Ófeigsfjörð haldið opnum allt árið. Að framkvæmdatíma loknum telja skýrsluhöfundar ekki líklegt að samgöngur verði betri en nú er að öðru leyti en því að yfir sumartímann verður hægt að nýta sér nýjan veg í Ófeigsfjörð og jeppaslóða yfir Ófeigsfjarðarheiði. Mætti líkja þeim vegi við veginn yfir Þorskafjarðarheiði.

Nýr vegur úr Melavík yfir í Ingólfsfjörð og áfram yfir í Ófeigsfjörð er hluti af virkjunarframkvæmdunum. VesturVerk hefur lýst áhuga á að vegur/vegslóði sem fylgja mun áformuðum jarðstreng yfir Ófeigsfjarðarheiði og í Djúp verði opinn almenningi. Á sumrin yrði þannig komin ný og áhugaverð jeppafær hringleið og væri Árneshreppur þá ekki lengur endastöð.

Hvernig var matið unnið?

Eins og fyrr segir var skýrslan unnin fyrir Vesturverk en hana unnu Jón Þorvaldur Heiðarsson, hagfræðingur og lektor við Háskólann á Akureyri og Hjalti Jóhannesson, sérfræðingur við RHA sem jafnframt var verkefnisstjóri. Lögð var áhersla á að greina áhrif virkjunnarinnar jafnt á framkvæmdatíma sem rekstartíma. Eftirtaldir fimm þættir voru lagðir til grundvallar í verkefninu: 1. Vinnumarkaður og atvinnuvegir. 2. Rekstur sveitarfélaga. 3. Innviðir. 4. Þjónusta. 5. Íbúaþróun og búseta.

Gerð var einföld samfélagsgreining þar sem stöðu helstu þátta samfélagsins var lýst. Byggðist verkefnið einkum á greiningu opinberra hagtalna og opinberum upplýsingum, s.s. frá Hagstofu Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Þjóðskrá. Einnig var byggt á gögnum frá VesturVerki, matsskýrslu, alþjóðlegum leiðbeiningum um mat á samfélagsáhrifum og sérfræðiskýrslum í þeirri umhverfismatsvinnu sem farið hefur fram vegna virkjunarinnar. Varðandi tilhögun framkvæmda og rekstur virkjunar var einkum byggt á matsskýrslu. Tekin voru sérfræðiviðtöl, m.a. við forsvarsmenn sveitarfélagsins, fyrirtækja á áhrifasvæðinu, opinberra stofnana, stéttarfélaga, annarra félaga og aðila sem tengjast framkvæmdinni beint eða óbeint.

Hér má finna skýrsluna í heild sinni.


Á siglingu við Norðurfjörð í Árneshreppi. Mynd: Ágúst G. Atlason.
Á siglingu við Norðurfjörð í Árneshreppi. Mynd: Ágúst G. Atlason.