Sjálfbærnimat á undirbúningsstigi Hvalárvirkjunar í opnu umsagnarferli

18/08/2025
Deila

Í dag hófst opið umsagnarferli á niðurstöðum HSS sjálfbærnimats, sem framkvæmt hefur verið á undirbúningsstigi Hvalárvirkjunar. Niðurstöður matsskýrslunnar eru nú aðgengilegar öllum hér á vefsíðunni og stendur umsagnartíminn yfir í sex vikur - frá 18. ágúst til 17. október.

Haustið 2024 framkvæmdu matsmenn á vegum HSA (Hydropower Sustainability Alliance) samtakanna um sjálfbæra vatnsorku úttekt á undirbúningsstigi Hvalárvirkjunar. Matið er gert í samræmi við alþjóðlega HSS staðalinn (Hydropower Sustainability Standard) og fól í sér umfangsmikla gagnaöflun, viðtöl við ólíka hagaðila og vettvangsferð á fyrirhugað virkjunarsvæði. VesturVerk þakkar öllum viðmælendum mikilvægt framlag þeirra.

Hagaðilar og almenningur geta kynnt sér niðurstöður matsins og sent inn athugasemdir en matsskýrsluna, bæði á íslensku og ensku, má nálgast hér á vefsíðunni undir „Hvalárvirkjun“. Í kjölfar umsagnarferlis fara matsmenn yfir innsendar athugasemdir og gefa út lokaútgáfu matsskýrslunnar.

Hér fyrir neðan má nálgast hlekki í upplýsingasíðurnar á vefsíðunni og þar er meðal annars að finna hlekk í umsagnakerfi HSA samtakanna.

Íslenska: HSS sjálfbærnimat
Enska: Hydropower Sustainability Standard Assessment

Hér fyrir neðan fylgir skýringarmynd af niðurstöðum matsskýrslunnar. Samkvæmt matinu uppfyllir undirbúningsstig verkefnisins allar lágmarkskröfur HSS staðalsins. Að óbreyttu gefa niðurstöður sem taka mið af ítarlegri kröfum staðalsins til kynna að verkefnið nái gull-viðmiðum staðalsins og sé vottunarhæft sem slíkt.

Myndræn framsetning á niðurstöðum HSS sjálfbærnimatsins fyrir undirbúningsstig Hvalárvirkjunar.
Myndræn framsetning á niðurstöðum HSS sjálfbærnimatsins fyrir undirbúningsstig Hvalárvirkjunar.

Hér fyrir neðan má sjá auglýsingu um opna samráðsferlið með QR-kóðum sem beina lesendum inn á matsskýrsluna og umsagnarformið, jafnt á íslensku sem ensku.

Tekið skal fram að sé um misræmi að ræða milli íslensku og ensku útgáfna matsskýrslunnar þá gildir enski textinn en hann er upprunatexti skýrslunnar.

Auglýsing vegna opins samráðs um niðurstöður HSS sjálfbærnimats vegna undirbúningsstigs Hvalárvirkjunar.
Auglýsing vegna opins samráðs um niðurstöður HSS sjálfbærnimats vegna undirbúningsstigs Hvalárvirkjunar.