Stiklað á stóru í undirbúningi Hvalárvirkjunar

24/12/2025
Deila

Í lok nóvember staðfesti Hæstiréttur niðurstöður Héraðsdóms Reykjavíkur og Landsréttar í máli eigenda jarðarinnar Drangavíkur gegn jarðeigendum Engjaness og Ófeigsfjarðar í Árneshreppi. Eigendur Drangavíkur kröfðust þess að þeim yrði dæmt land ásamt vatnsréttindum við Eyvindarfjarðará en dómurinn féllst ekki á kröfur þeirra.

Niðurstaða dómsins tryggir að VesturVerk getur haldið áfram vinnu við undirbúning Hvalárvirkjunar þar sem virkjunin heldur þeim vatnasviðum sem gert var ráð fyrir. Jafnframt getur Landsnet áfram unnið að undirbúningi tengingar virkjunarinnar við meginflutningskerfið.

Framkvæmdaleyfi fyrir undirbúningsframkvæmdir

Snemma í haust veitti Hreppsnefnd Árneshrepps VesturVerki leyfi fyrir undirbúningsframkvæmdum virkjunarinnar. Framkvæmdaleyfið gerir VesturVerki kleift að ljúka jarðvegsrannsóknum uppi á Ófeigsfjarðarheiði, bæði á og við stíflustæði og á svæðum þar sem jarðgöng koma til með að liggja. Auk þess er ætlunin að brúa Hvalá, leggja vegslóða upp á heiði, laga veg frá Melum til Hvalárósa, leggja háspennustreng samhliða vegi og útbúa lóð fyrir litlar vinnubúðir.

Framkvæmdaleyfið var kært sem og leyfi Fiskistofu og verða bæði leyfin í kæruferli fram á næsta ár, sem mun hafa áhrif á tímasetningu fyrirhugaðra framkvæmda.

Nauðsynlegar vegaúrbætur

Í byrjun desember sendi VesturVerk erindi til innviðaráðuneytis með afriti til Vegagerðarinnar þar sem kynnt er frumhönnun vegaúrbóta í Árneshreppi sem VesturVerk telur nauðsynlegar. Samráð hefur verið haft við Vegagerðina um hönnun og útfærslur.

Um er að ræða lágmarksúrbætur á Strandavegi og Ófeigsfjarðarvegi til að auka burðargetu veganna, laga og/eða breyta veglínum og greiða fyrir almennri umferð og flutningum.

Úrbæturnar eru brýnar þar sem ástand veganna er bágborið og vart bjóðandi fyrir almenna umferð eða þá umferð sem bætist við vegna framkvæmda, jafnt á vegum VesturVerks sem Landsnets. Ætla má að framkvæmdir standi yfir í þrjú til fjögur ár. Aðkoma Vegagerðarinnar er óhjákvæmileg þar sem hún er veghaldari á áðurnefndum tveimur vegum.

VesturVerk hefur lýst yfir vilja til að ræða aðkomu að vegaúrbótum sem snúa að Vegagerðinni en hluti framkvæmdanna er á samgönguáætlun.

Sem fyrr leggur VesturVerk áherslu á það í samskiptum sínum við ríkisvaldið að vegbætur í Árneshreppi eru mikilvæg forsenda framkvæmda. Koma þarf starfsfólki ásamt aðföngum að og frá verkstað og brýnt að greiðfært sé allt árið um kring.

Undirbúningur Landsnets og tengigjöld

Gott samtal er milli VesturVerks og Landsnets um þá skipulags- og framkvæmdaþætti sem vinna þarf samhliða við undirbúning að framkvæmdum beggja fyrirtækja. VesturVerk hefur vakið athygli Landsnets á háu kerfisframlagi (tengigjaldi) samkvæmt Kerfisáætlun. Hefur VesturVerk óskað eftir gagngerri endurskoðun á reiknireglum kerfisframlags með það að markmiði að kerfisframlag virkjana í upphafi verði ekki eins íþyngjandi og nú er, jafnvel svo íþyngjandi að verkefnin verða óhagkvæm og ekki álitleg til framkvæmda.

HSS sjálfbærnimat - vottun á undirbúningsstigi

Fyrir árslok má búast við staðfestingu frá HS Alliance, samtökum um sjálfbæra vatnsorku á heimsvísu, um vottun á undirbúningstigi Hvalárvirkjunar. Þar með lýkur úttekt erlendra úttektaraðila á verkefninu, sem staðið hefur yfir frá haustinu 2023. Bráðabirgðamat var gefið út í júní 2025 og fór það í opið 60 daga umsagnarferli. Í matsferlinu hafa komið fram ýmsar gagnlegar ábendingar sem nýttar verða til að styrkja verkefnið. Lokaútgáfa skýrslunnar og helstu niðurstöður verða birtar á næstunni á heimasíðum VesturVerks.