Sveitarstjórnarmenn fagna áformum um aukna raforkuframleiðslu á Vestfjörðum

29/10/2019

Vestfirskir sveitarstjórnarmenn fagna áformum um aukna raforkuframleiðslu á Vestfjörðum með sjálfbærri nýtingu vatns og vinds. Fyrirhuguð Hvalárvirkjun og fleiri vatnsaflskostir í fjórðungnum, ásamt áformum um vindorkugarð í Garpsdal, falla þar vel undir.

Ályktun þessa efnis um raforkumál var samþykkt á nýliðnu haustþingi Fjórðungssambands Vestfirðinga, sem fram fór í félagsheimilinu á Hólmavík dagana 25.-26. október s.l. Á haustþinginu var því einnig fagnað að nýr tengipunktur raforku í Ísafjarðardjúpi er kominn á framkvæmdaáætlun Landsnets.

Fjölbreytt atvinnulíf krefst orku og öryggis

Í greinargerð með ályktun haustþingsins um raforkumál segir: ,,Staðfest er að aukin eftirspurn verður eftir orku á Vestfjörðum vegna fjölbreyttrar starfsemi svo sem kalkþörungavinnslu, fiskeldis, ferðaþjónustu og fjölgunar íbúa samhliða auknum umsvifum í atvinnulífi. Slík uppbygging er háð því að afhendingaröryggi og aðgangur að aukinni orku sé fyrir hendi. Haustþing fagnar því áformum um aukna raforkuframleiðslu á Vestfjörðum með sjálfbærri nýtingu vatns og vinds."

Vilja orkustefnu fyrir Íslands

Haustþingið kallar eftir því að mótuð verði langtímaorkustefnu fyrir Ísland, og segir stefnuleysi í þessum málaflokki standa þróun á Vestfjörðum fyrir þrifum. Í ályktun þingsins er vísað í meginmarkmið Fjórðungssambands Vestfirðinga um að vinna að því að efla og styðja við búsetu, mannlíf og atvinnulíf á Vestfjörðum. Jafnframt er vísað til þeirrar stefnu stjórnvalda sem mörkuð var með þingsályktun um uppbyggingu flutningskerfis raforku nr. 26/148. Þar er stefnt að því að allir þéttbýlisstaðir landsins verði tengdir N1 tengingu, sem tryggir betri raforkuflutninga, innan tiltekins árafjölda.

Tengipunktur liður í hringtengingu

Haustþingið fagnar því að nýr tengipunktur raforku í Ísafjarðardjúpi sé komin á framkvæmdaáætlun Landsnets. ,,Hér hefur verið komið í farveg baráttumáli Vestfirðinga um hringtengingu flutningskerfis raforku á Vestfjörðum eða svokölluð N-1 tenging. Bein áhrif þessa verkefnis verða úrbætur á afhendingaröryggi raforku á norðanverðum Vestfjörðum og Ströndum með nýjum flutningslínum, en óbeint inn á sunnanverða Vestfirði með aukinni flutningsgetu. Því þarf samhliða að auka raforkuöryggi á sunnanverðum Vestfjörðum samkvæmt tillögu í langtímaáætlun Landsnets um uppbyggingu flutningskerfis með raflínum og sæstrengjum. Haustþing hvetur til þess að afhendingaröryggi á sunnanverðum Vestfjörðum verði forgangsmál á næstu árum og að tekin verði ákvörðum um leiðir til úrbóta sem fyrst."

Orkuskiptin viðhalda hreinleika svæðisins

Í greinargerð ályktunarinnar var að endingu fjallað um orkuskiptin sem framundan eru, jafnt á Vestfjörðum sem annars staðar á landinu. "Orkuskipti í samgöngum, hvort sem er á legi eða láði, eru að eiga sér stað um allt land og skiptir miklu máli fyrir samkeppnisstöðu svæðisins. Orkuskiptin eru einnig mikilvægur þáttur í að viðhalda hreinleika svæðisins og skiptir máli að uppbygging hleðslustöðva fyrir bíla og skipatengla í höfnum á Vestfjörðum verði sem hröðust. Samræma þarf uppbyggingu vegna orkuskipta og eflingu flutnings- og dreifikerfis raforku."

Á haustþingi Fjórðungssambands Vestfirðinga sem haldið var í félagsheimilinu á Hólmavík 25.-26. október s.l.. Ljósmynd: Vestfjarðastofa.
Á haustþingi Fjórðungssambands Vestfirðinga sem haldið var í félagsheimilinu á Hólmavík 25.-26. október s.l.. Ljósmynd: Vestfjarðastofa.