Tengipunktur og hringtenging í augsýn

12/04/2019

Í nýútkominni skýrslu Landsnets eru kynntar hugmyndir að nýjum tengipunkti raforku í Ísafjarðardjúpi ásamt tillögum að línulögnum og jarðstrengjum vegna Hvalárvirkjunar í Ófeigsfirði á Ströndum. Í skýrslunni er sömuleiðis fjallað um mögulegar tengingar frá hinum nýja tengipunkti út eftir fjarðarbotnum við Ísafjarðardjúp áleiðis til Ísafjarðar – svokölluð innfjarðaleið. Með slíkri tengingu næðist að hringtengja Vestfirði, sem hefur verið baráttumál Vestfirðinga um langa hríð.

Skýrslan, sem var unnin af Norconsult fyrir Landsnet, hefur verið kynnt sveitarstjórnum í Árneshreppi, Kaldrananeshreppi, Strandabyggð og Reykhólahreppi sem eru þau sveitarfélög sem fara með skipulagsvald á svæðum þar sem tengipunkti er ætlaður staður og línur munu liggja.

Landsnet miðar við Miðdal

Í inngangi segir: ,,Markmiðið með skýrslunni er að leggja fram upplýsingar til að auðvelda endanlegt val á staðsetningu tengipunktsins og að meta mögulegt umfang jarðstrengslagna í þessum tengingum, en þekkt er hversu kerfislega veikt flutningskerfið á Vestfjörðum er og þar með umtalsverðar takmarkanir á möguleikum til jarðstrengslagna. Ekki er endanlega búið að ákveða nákvæma staðsetningu á tengipunktinum, en í þessari greiningu er miðað við að hann verði staðsettur við mynni Miðdals, norðvestan undir Steingrímsfjarðarheiði.”

Hringtenging Vestfjarða loks komin á kortið

Fyrir tæpum tveimur árum, í ágústmánuði 2017, óskaði VesturVerk eftir því að Hvalárvirkjun yrði tengd við flutningskerfi Landsnets. Fleiri orkuvinnslukostir eru við Ísafjarðardjúp, s.s. í Austurgili, við Skúfnavötn, í Hvanneyrardal og í Sængurfossi, og er tekið mið af því í skýrslunni. Þar segir jafnframt: ,,Einnig er horft til tengingar tengipunktsins við dreifikerfi raforku á svæðinu, mögulegrar framtíðartenginga vestur til Ísafjarðar og til austurs, sem hluta af mögulegri styrkingu flutningskerfisins til Vestfjarða. Auk þess er horft til rekstrarlegra áhrifa tenginganna á flutningskerfið.”

Má segja að hér sé í fyrsta sinn í opinberum gögnum Landsnets brugðist við þeim kröfum sem vestfirskt samfélag, jafnt sveitarstjórnir og fyrirtæki sem almenningur, hefur haldið á lofti um að flutnings- og dreifikerfi Vestfjarða verði fært til nútímans og hringtenging raforku tryggð í fjórðungnum.

Einnig hefur verið til frumskoðunar þriðji möguleikinn til hringtengingar en hann er sá að tvöfalda núverandi Mjólkárlínu 1 úr Kollafirði að Mjólká að því gefnu að byggt yrði tengivirki í Kollafirði. Ekki er fjallað um þann tengimöguleika í þessari skýrslu en unnið er að sambærilegri greiningu fyrir þá lausn.

Tenging Hvalárvirkjunar gengur kerfislega upp ásamt tengingu við Ísafjörð

Í skýrslunni segir: ,,Meginniðurstöður þeirra kerfisgreininga, sem greint er frá í þessari skýrslu, eru þær að sú leið sem lýst er varðandi staðsetningu tengipunkts í Djúpinu og tengingu Hvalárvirkjunar gengur upp kerfislega. Ljóst er að verulegar kerfislegar takmarkanir til jarðstrengjalagna eru til staðar og hafa mikil áhrif á útfærslur og leiðaval.

Niðurstaða greininganna er sú að lágt skammhlaupsafl á svæðinu, kemur í veg fyrir að unnt sé að fara annnesjaleiðina með þeim sæ- og jarðstrengum sem aðstæður eru taldar gera kröfu um. Hins vegar er hægt að fara með háspennulínu innfjarðaleiðina til Ísafjarðar með jarðstrengjum á völdum köflum, samtals um 10 km. Komi til tengingar frá tengipunktinum til Ísafjarðarsvæðisins er lagt til að miða við innfjarðaleið og að línan verði byggð sem 132 kV lína en rekin á 66 kV spennu þar til þörf verður á spennuhækkun."

Línan mun liggja suður í Kollafjörð

Landsnet horfir til þess að úr tengipunkti í Ísafjarðardjúpi liggi loftlína suður í Kollafjarðarbotn og tengist þar við meginflutningskerfi raforku um Mjólkárlínu 1. Til skoðunar eru tvö spennustig fyrir tenginguna frá Miðdal til Hvalár, þ.e. 66 kV og 132 kV, og hafa möguleikar á jarðstrenglögnum fyrir bæði spennustigin einnig verið metnir. Í greiningunni er gert ráð fyrir að þeir strengmöguleikar, sem fyrir hendi eru á sunnan- og norðanverðum Vestfjörðum í dag, verði nýttir við uppbyggingu á núverandi 66 kV flutningskerfi fjórðungsins.

Jákvæð áhrif Hvalárvirkjunar óumdeild

Skýrsla þessi kemur í kjölfar nýrrar og ítarlegrar greiningar Landsnets á afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum en sú skýrsla kom út um miðjan mars. Þar eru tekin af öll tvímæli um að Hvalárvirkjun mun bæta raforkuöryggi Vestfjarða og í Dalabyggð, jafnvel þótt ekki komi til aðrar tengingar en til Kollafjarðar um Mjólkárlínu. Ýmsar útfærslur og minni hringtengingar því til viðbótar munu auka öryggið til mikilla muna en mestu mun þó skipta að tengja Hvalárvirkjun til Ísafjarðar innfjarðarleiðina um tengipunkt í Ísafjarðardjúpi. Afhendingaröryggi raforku á Ísafirði og í nágrenni mun þá nálgast það sem þekkist á höfuðborgarsvæði Íslands.

Tengla á báðar skýrslur Landsnets má finna hér:

Tengipunktur við Ísafjarðardjúp og tenging Hvalár

Flutningskerfið á Vestfjörðum – greining á afhendingaröryggi

Mögulegir tengipunktar í Ísafjarðardjúpi sem verið hafa til skoðunar, auk annesja- og innfjarðaleiða. Mynd: Landsnet.
Mögulegir tengipunktar í Ísafjarðardjúpi sem verið hafa til skoðunar, auk annesja- og innfjarðaleiða. Mynd: Landsnet.