Tengipunkturinn á framkvæmdaáætlun Landsnets

21/05/2019
Deila

Nýr afhendingarstaður raforku í Ísafjarðardjúpi, svokallaður tengipunktur, er kominn á framkvæmdaáætlun Landsnets fyrir árin 2020-2022. Það eru góð tíðindi fyrir Hvalárvirkjun en tengipunkturinn er forsenda þess að hægt sé að flytja rafmagn frá virkjuninni inn á meginflutningskerfi landsins. Áætlanir Landsnets um uppbyggingu flutningskerfisins á Vestfjörðum munu bæta afhendingaröryggi rafmagns í fjórðungnum til muna.

Framkvæmdaáætlunin er hluti afKerfisáætlun Landsnets sem er í kynningu þessar vikurnar. Landsnet stendur m.a. fyrir almennum kynningarfundi um áætlunina á Hótel Ísafirði í dag, þriðjudaginn 21. maí.

Verkefnið snýr að uppsetningu á nýjum afhendingarstað í meginflutningskerfinu við Ísafjarðardjúp. Afhendingarstaðurinn verður tengdur við núverandi meginflutningskerfi í Kollafirði inn á Mjólkárlínu 1, þar sem byggt verður nýtt tengivirki. Meginmarkmið framkvæmdarinnar er að auka afhendingaröryggi flutningskerfisins á Vestfjörðum.

Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist á síðari hluta árs 2022 og að þeim ljúki með spennusetningu seinni hluta árs 2024.

Séð yfir Ísafjörð í Skutulsfirði áleiðis inn í Ísafjarðardjúp. Ljósmynd: Birna Lárusdóttir.
Séð yfir Ísafjörð í Skutulsfirði áleiðis inn í Ísafjarðardjúp. Ljósmynd: Birna Lárusdóttir.