Um gaddavírsgirðingar, brúðhjón og auðseljanleika hugmynda

20/12/2019

Guðni A. Jóhannesson, orkumálastjóri, birti í gær árlegan jólapistil sinn á vef Orkustofnunar. Pistillinn er í lengra lagi en þar kennir ýmissa grasa sem fróðlegt er að fara í gegnum fyrir áhugafólk um orkumál.

Guðni gerir loftslagsvanda heims fyrst að umtalsefni og segir það litlu skipta hversu mikið Íslendingar losa af kolefni: "Vandamál okkar vegna loftslagsbreytinga verða ekki minni ef árangur í samdrætti losunar næst ekki á heimsvísu. Möguleikar ríkja til þess að vinna að minnkun losunar og bindingar kolefnis eru ekki endilega mestir innan eigin landamæra. Þetta á svo sannarlega við um Ísland."

Hörð gagnrýni á ráðuneyti umhverfismála

Guðni gerir þekkingarsköpun í orkugeiranum að umtalsefni og segir að almennt sé viðurkennt að ein meginforsenda útflutnings á þekkingu, verkefnum og vörum sé öflugur heimamarkaður sem gefi tækifæri til að takast á við nýjar áskoranir og þróa áfram þekkingu og reynslu í nærumhverfinu.

"Í öðrum löndum eru slíkir öflugir vaxtarsprotar atvinnulífsins, sem falla vel að markmiðum um sjálfbæra samfélagsþróun á heimsvísu, í hávegum hafðir og sérstök rækt lögð við að halda við öflugum heimamarkaði og stutt við rannsóknir og innlenda þróun. Hér er okkar eigið auðlindaráðuneyti í annarri vegferð.

Öll starfsemi þar virðist mér ganga út á að reisa margfaldar gaddavírsgirðingar í kringum framtíðarkosti okkar til virkjunar jarðhita og vatnsfalla og koma jafnvel í veg fyrir áframhaldandi rannsóknir á auðlindunum. Allt er þetta gert undir sakleysislegum og auðseljanlegum formerkjum, eins og stofnun hálendisþjóðgarðs og friðlýsingar náttúrusvæða, en hins vegar vandlega sneitt hjá því að meta áhrif þessa á orkuöryggi, atvinnulíf, hagvaxtarmöguleika okkar til lengri tíma, framlag okkar til loftslagsvænnar raforkuvinnslu og svona mætti lengi telja.

Verkefnaskortur innanlands blasir við okkar helstu rannsóknastofnunum og fyrirtækjum á þessu sviði. Þekking og reynsla sem byggst hefur upp á undanförnum áratugum brotnar niður í sundurlausan eyjarekstur og frumkvæði okkar og orðspor á alþjóðavettvangi fjarar út. Í stað þess ættum við, með því að byggja á sterkum grunni áframhaldandi verkefna og þróunar, blása till nýrrar og öflugri sóknar á alþjóðavettvangi."

Vatnsorka með uppistöðulónum oftast hagkvæmasti kosturinn

Guðni kemur inn á það hvernig jarðhiti er víða um heim vannýtt auðlind en sé sennilega hagkvæmasti kosturinn til orkuskipta þar sem honum verður komið við. "Í öðru lagi eru það stærri og minni vatnsorkuver. Vatnsorkan er víða vannýtt, sérstaklega í löndum sem hafa búið við mikla fátækt. Einnig vex mikilvægi hennar þegar raforkuframleiðsla, sem byggir að verulegu leyti á sólarorku og vindi, er breytileg eftir veðurfari og vindum. Vatnsorka með uppistöðulónum er oftast hagkvæmasti kosturinn til þess að miðla raforku milli tímabila eftir því sem samspil framboðs og eftirspurnar breytist."

Íslendingar aldrei séð rautt

Veðurofsi síðustu viku og afleiðingar hans verða orkumálastjóra að löngu umtalsefni: "Íslendingar vissu það ef til vill ekki fyrir, en nú vita þeir hvað rauð viðvörun þýðir. Víðtækur og viðvarandi veðurofsi býður ekki upp á ferðir á milli staða meðan hann gengur yfir og gera má ráð fyrir skemmdum og áföllum í innviðum sem valda verulegum erfiðleikum í rekstri heimila, fyrirtækja og stofnana og geta stefnt öryggi okkar sem einstaklinga í hættu með ýmsu móti.

Þegar upp er staðið sitjum við uppi með ótal dæmi um heimili sem hafa verið án símasambands, einangruð og rafmagnslaus, kýr sem standa ómjólkaðar, heilu bæjarfélögin án rafmagns, línur sem hafa slitnað, staura sem hafa brotnað, spenni- og tengivirki sem hefur slegið út vegna ísingar og seltu og svona mætti lengi telja. Við megum heldur ekki gleyma því að í svona ástandi eru vinnuflokkar og björgunarsveitir sendar út til þess að sinna nauðsynlegum björgunar- og viðgerðarstörfum við mjög krefjandi og hættulegar aðstæður.

Það er eðlilegt að menn spyrji sig hvort hægt sé að verjast svona áföllum. Eftir slíka álagsprófun getum við ályktað um það hvernig öðruvísi og betur hefði mátt standa að málum og hvað hefði þurft til til þess að koma í veg fyrir rafmagnsleysi á mismunandi stöðum. Fyrsta svarið er að almenn styrking flutningskerfisins gengur alltof hægt. Áfangar sem hafa verið fjármagnaðir og á áætlun í langan tíma hafa dregist úr hömlu og lent í kvörn langvinnra kærumála og flækjustigið virðist vaxa með hverju ári."

Kærunefnd hjónabandsmála

Hér setur Guðni leyfisveitingaferli raforkumannvirkja í nokkuð nýstárlegt samhengi: "Þegar brúðhjón í útlendum bíómyndum ganga upp að altarinu þá biður klerkur viðstadda sem sjá meinbugi á hjónabandinu að gefa sig fram eða hafa sig ekki í frammi héðan eftir. Ef við værum með sama réttarfar og við leyfisveitingar fyrir nýjum raforkumannvirkjum myndi afbrýðissamur þriðji aðili kæra hjónavígsluna til kærunefndar hjónabandsmála á grundvelli þess að ekki hafi farið fram nógu vönduð valkostagreining áður en brúðurin valdi sér mannsefni. Átján mánuðum síðan kæmi síðan úrskurður um að útgefið hjónavígsluvottorð væri fellt úr gildi og hjónunum gert að flytja sundur og byrja tilhugalífið upp á nýtt. Þá væri reyndar eitt barn komið í heiminn og annað á leiðinni."

Til viðbótar nauðsynlegri styrkingu flutningskerfisins bendir Guðni á að hægt sé verja tengivirki betur fyrir ísingu og seltu en nú er með einhvers konar yfirbyggingum. Jafnframt telur hann að eftir því sem stærri hluti dreifikerfisins á lægri spennu sé lagður í jörð, þeim mun minni líkur verði á truflunum í dreifikerfinu.

Almenningur og stóriðjan samnýta flutningskerfið

Undir lok pistils síns beinir orkumálastjóri orðum sínum að þeim, sem helst hafa staðið í vegi fyrir uppbyggingu nýrra flutningslína: "Þeir sem hafa á undanförnum árum barist harðast gegn nýjum flutningslínum í raforkukerfinu og lagt stein í götu leyfisveitinga og framkvæmda hvar sem tækifæri gefast, eiga nú í vök að verjast þegar menn sjá afleiðingar mikilla veikleika í flutnings- og dreifikerfinu. Þeir reyna nú að setja þetta í þann búning að þeir séu ekki andsnúnir línum sem þjóna hinum almenna hluta kerfisins heldur einungis framkvæmdum sem þjóna stóriðju. 

Í umsögn Landverndar um kerfisáætlun Landsnets segir: „Landsnet sem fyrirtæki í eigu almennings ætti að sjá sóma sinn í því að taka þetta skýrt fram í allri umfjöllun um afhendingaröryggi og ætti alls ekki að hafa frumkvæði að hræðsluáróðri eins og fyrirtækið stóð fyrir í tengslum við ársfund sinn þar sem talað var um skert þjóðaröryggi. Ef dregið hefur úr þjóðaröryggi vegna lítillar flutningsgetu raforkukerfisins þarf að tengja það beint við orsakavaldinn: stóriðju.“

Hér er grundvallar misskilningur á ferðinni. Almenna kerfið og stóriðjan samnýta meginflutningskerfið. Með auknu raforkumagni sem flytja þarf um línurnar aukast tekjur og möguleikar til þess að efla og styrkja kerfið. Með hærra spennustigi aukum við verulega flutningsgetu línunnar og minnkum töp, þannig að kostnaður á flutta einingu minnkar fyrir alla. Það þýðir líka að hægt er að flytja orku milli virkjanasvæða þegar áföll og truflanir verða í raforkuframleiðslu á einu svæði. Byggðarlögin losna úr spennitreyju takmarkaðrar flutningsgetu og atvinnulíf getur haldið áfram að byggjast upp með eðlilegum hætti. Sterkara atvinnulíf og betri afkoma er svo grundvöllur að fjármögnun sterkari innviða. Sterkari stauravirki og línur sem liggja hærra yfir jörðu minnka líkur á áföllum vegna veðurs, þótt vissulega sé aldrei hægt að útiloka þau."

Hér má nálgast jólapistil orkumálastjóra árið 2019.

Guðni A. Jóhannesson, orkumálastjóri.
Guðni A. Jóhannesson, orkumálastjóri.