Vatnamælingar að vori

2/05/2018

Vatnsrennslimælingar eru mikilvægur liður í rannsóknum til undirbúnings á fyrirhugðum virkjunarframkvæmdum VesturVerks á Vestfjörðum. Á grundvelli rannsóknarleyfa rekur fyrirtækið alls 18 síritandi vatnshæðarmæla í fjórðungnum til undirbúnings öllum fjórum virkjunarkostum fyrirtæksins, Hvalárvirkjun, Skúfnavatnavirkjun, Hvanneyrardalsvirkjun og Hest- og Skötufjarðarvirkjun.

Um síðustu helgi fór Gunnar Gaukur Magnússon, framkvæmdastjóri VesturVerks ásamt Sverri Óskari Elefsen, vatnamælingamanni hjá verkfræðistofunni Mannviti og Valdimari Steinþórssyni, í vettvangsferð um Glámuhálendið og Ófeigsfjarðarheiði til að safna saman gögnum úr mælunum og kanna ástand þeirra.

Vítt og breytt um hálendi Vestfjarða

Þremenningarnir lögðu af stað á föstudag áleiðis upp á á Glámuhálendið upp af Hestakleif, milli Ísafjarðar og Mjóafjarðar, á vélsleðum í ágætis veðri og þokkalegu skyggni sem fór þó mjög þverrandi þegar ofar dró. Sóttu þeir fyrst gögn úr tveimur mælum vegna Hvanneyrardalsvirkjunar en einn mælir þar var látinn eiga sig þar sem hann er enn undir ís. Þaðan var haldið yfir á vatnasvið Hest- og Skötufjarðarvirkjunar og gögn sótt í tvo mæla en sá þriðji var enn undir ís og því óaðgengilegur. Deginum lauk svo á því að sótt voru gögn í mæli í Hvannadalsá. Á laugardeginum var farið í blíðskaparveðri á Ófeigsfjarðarheiði og gögn sótt í samtals níu mæla vegna Hvalárvirkjunar og Skúfnavatnavirkjunar.

Góðar heimtur úr mælum

Að sögn Gunnars Gauks gekk leiðangurinn að óskum og héldu þeir félagar heim á leið síðdegis á laugardag og höfðu þá aflað þeirra gagna sem til stóð. Að mati Gunnars Gauks er frekar snjólétt á hálendi Vestfjarða miðað við árstíma.

Næsta vatnamælingaferð VesturVerks verður farin í byrjun júní en þá stendur til að mæla sérstaklega hárennsli í ám.

Fulltrúar VesturVerks við vatnamælingar efst á Ófeigsfjarðarheiði. Mælingarnar eru liður í undirbúningi Hvalárvirkjunar í Ófeigsfirði.
Fulltrúar VesturVerks við vatnamælingar efst á Ófeigsfjarðarheiði. Mælingarnar eru liður í undirbúningi Hvalárvirkjunar í Ófeigsfirði.