Vatnsréttindi vegna virkjana VesturVerks

20/02/2018

Vatnsréttindi á Vestfjörðum hafa verið töluvert í umræðunni að undanförnu í tengslum við ýmis virkjunaráform og skipulagsvinnu í sveitarfélögum. Vatnsréttindi tengd verkefnum VesturVerks á Vestfjörðum tilheyra í flestum tilfellum landi í einkaeign. Sveitarfélög við Djúp skoða nú hvort vatnsréttindi, sem sveitarfélög lögðu inn við stofnun Orkubús Vestfjarða fyrir fjörutíu árum, séu afturkræf.

Þegar Orkubú Vestfjarða var stofnað árið 1978 lögðu vestfirsk sveitarfélög inn eignir og öll vatnsréttindi sín gegn 60% eignarhluta í í OV á móti hlut ríkisins. Almennt var litið svo á að þar með ætti OV öll réttindin. Árið 2002 komst OV alfarið í eigu ríkisins eftir að sveitarfélögin seldu eignarhluti sína og þar með var talið að öll vatnsréttindin væru komin á hendi ríkisins. Nú eru uppi efasemdir um lögmæti afsals þessara réttinda fyrir fjörutíu árum og skoða sveitarfélögin við Djúp réttarstöðu sína. OV telur engan vafa leika á eignarhaldinu og segir samninga sýna að sveitarfélögin hafi á sínum tíma afsalað sér til OV öllum rétti til virkjunar vatnsafls, jarðhita og fallvatns og afsalið næði jafnt til þekktra sem óþekktra réttinda. Hugsanlegt er að dómsmál þurfi til að fá skorið úr um eignarhaldið.

Ef litið er til áforma Vesturverks er Hvalárvirkjun stærst verkefnanna og virkja þarf þrjú vatnsföll. Vatnsréttindi Hvalár og Rjúkanda eru í eigu landeigenda í Ófeigsfirði á Ströndum. Vatnsréttindi Eyvindarfjarðarár skiptast til helminga milli landeigenda í Ófeigsfirði og landeigenda að Engjanesi í Eyvindarfirði. Andstæðingar virkjunarinnar hafa haldið því fram að VesturVerk hafi keypt vatnsréttindi jarðanna. Það er rangt enda er samkvæmt jarðalögum ekki hægt að skilja vatnsréttindi frá jörðum. 

VesturVerk hefur gert nýtingarsamninga við landeigendur til 60 ára um öll nauðsynleg vatnsréttindi til að unnt sé að hefja uppbyggingu Hvalárvirkjunar. Þess má geta að þrír af eigendum VesturVerks eru einnig landeigendur í Ófeigsfirði en það eru þeir Gunnar Gaukur Magnússon, framkvæmdastjóri, Hallvarður Aspelund og Valdimar Steinþórsson. Þremenningarnir eru upphafsmenn virkjunaráforma fyrirtækisins og eiga þriðjungshlut í því í gegnum Glámu fjárfestingar slhf. 

Landareign í tengslum við virkjunaráform VesturVerks í Ísafjarðardjúpi er með eilítið öðru sniði. Land undir Skúfnavatnavirkjun innst í Ísafjarðardjúpi eru allt í einkaeign en land undir fyrirhugaða Hvanneyrardalsvirkjun upp af Ísafirði er að mestu í eigu Súðavíkurhrepps. Í tengslum við Hest- og Skötufjarðarvirkjun er land að mestu í einkaeign en þó á Súðavíkurhreppur lítinn hluta þess lands sem þar um ræðir. Viðræður hafa staðið yfir við landeigendur um nýtingarsamninga við Djúp en botn fæst væntanlega ekki í þær allar fyrr en niðurstaða er fengin í vatnsréttarmál tengd OV.

Félagarnir Hallvarður Aspelund (t.v.), Gunnar Gaukur Magnússon, framkvæmdastjóri VesturVerks, og Valdimar Steinþórsson á góðum degi við Hvalá. Þeir eiga saman þriðjungshlut í VesturVerki og eru einnig landeigendur í Ófeigsfirði.
Félagarnir Hallvarður Aspelund (t.v.), Gunnar Gaukur Magnússon, framkvæmdastjóri VesturVerks, og Valdimar Steinþórsson á góðum degi við Hvalá. Þeir eiga saman þriðjungshlut í VesturVerki og eru einnig landeigendur í Ófeigsfirði.