Vegabótum á Ófeigsfjarðarvegi miðar vel

15/08/2019

Viðhald og lagfæringar á Ófeigsfjarðarvegi ganga samkvæmt áætlun og eru langt komnar á þeim hluta vegarins sem liggur um Ingólfsfjörð. Sótt hefur verið um leyfi til að sækja efni í opna námu innst í firðinum og verður efnið notað til að bera ofan í veginn. Beðið verður í nokkra daga með að hefja vinnu við veginn um land Seljaness, m.a. vegna andmæla minnihluta landeigenda. Fyrst verður unnið að vegabótum innst í Ófeigsfirði.

VesturVerk sendi frá sér fréttatilkynningu fyrr í vikunni til að upplýsa um stöðu verkefnisins og næstu skref:

"Samkvæmt samningi við Vegagerðina fer VesturVerk með veghald Ófeigsfjarðarvegar, frá Melum í Norðurfirði að Hvalá í Ófeigsfirði. Unnið er að vegbótum í samræmi við samninginn og í góðu samráði við Vegagerðina. Vegna fyrirmæla frá Minjastofnun töfðust framkvæmdir í um þrjár vikur í júlímánuði en frá því að hafist var handa á ný hefur verkið gengið samkvæmt áætlun.

Vinna við veginn í sumar hefur að öllu leyti farið fram með sama verklagi og viðhaft er í viðhaldsverkefnum Vegagerðarinnar. Unnið er innan veghelgunarsvæðis Vegagerðarinnar, sem eru sex metrar frá miðlínu á þessari tegund vegar. Krappar beygjur hafa verið lagfærðar og ný ræsi lögð þar sem þeirra er þörf. Öllu jarðraski hefur verið haldið í lágmarki og þegar framkvæmdum lýkur verður gengið vel frá vinnusvæðum á sama hátt og gert er hjá Vegagerðinni.

Framundan er viðhald á þeim hluta Ófeigsfjarðarvegar sem liggur í gegnum jörðina Seljanes. Áður en til þess kemur munu verktakar lagfæra veginn innst í Ófeigsfirði ásamt því að undirbúa uppsetningu brúar yfir Hvalá.

Í matsskýrslu vegna umhverfismats Hvalárvirkjunar frá árinu 2016 er tillaga að nýrri veglínu um jörðina Seljanes. Vegna andstöðu við tillöguna, sem strax kom fram hjá hluta landeigenda Seljaness, var fallið frá hugmyndum að nýrri veglínu. Þess í stað yrði leitast við að fara eftir núverandi veglínu og vegurinn lagfærður í samráði við Vegagerðina.

Viðhald vegarins um jörðina Seljanes mun því að öllu leyti fara fram innan veghelgunarsvæðis Vegagerðarinnar. Veglínunni verður ekki breytt að öðru leyti en því að tvær krappar beygjur á veginum fyrir sjálft Seljanesið verða lagfærðar. Þannig komast stærri ökutæki um, öryggi vegfarenda eykst og sneytt verður hjá fornminjum sem skráðar eru á svæðinu. Veglínan færist mest til um þrjá metra í átt til sjávar og er enn vel innan veghelgunarsvæðisins.

Ekki verður hreyft við nafntoguðum kennileitum og minjum, hvorki innan landamerkja Seljaness né á öðrum köflum Ófeigsfjarðarvegar."

Við mörk sveitarfélaganna Kaldrananeshrepp og Árneshrepp. Ljósmynd: Kristján Loftur Bjarnason.
Við mörk sveitarfélaganna Kaldrananeshrepp og Árneshrepp. Ljósmynd: Kristján Loftur Bjarnason.