Vilja aukna orkuframleiðslu innan Vestfjarða

26/10/2018

Fulltrúar sveitarfélaga á Vestfjörðum hvetja til aukinnar orkuframleiðslu innan fjórðungsins og telja að hún muni stuðla að aukinni sjálfbærni Vestfjarða í orkumálum. Haustþing Fjórðungssambands Vestfirðinga, sem fram fór dagana 5.-6. október, ályktaði í þessa veru en þingið var haldið í skugga mikillar óvissu um framtíð sjókvíaeldis á Vestfjörðum.

Þingið samþykkti ályktanir um öll helstu hagsmunamál Vestfjarða og má nálgast þær hér á vefsíðu Vestfjarðastofu. Ályktunin um orkumál er stutt og skorinort en þar segir: „Þriðja haustþing Fjórðungssambands Vestfirðinga haldið á Ísafirði dagana 5.-6. október 2018 krefst þess að eigi síðar en árið 2030 verði öllum þéttbýlisstöðum á Vestfjörðum tryggð n-1 tenging (tenging úr tveimur áttum). Fjórðungsþingið krefst þess einnig að orkuframleiðsla innan Vestfjarða verði aukin svo að þeir verði sjálfbærir í orkuframleiðslu og geti mætt aukinni eftirspurn fólks og fyrirtækja.“

Ekki þarf að fjölyrða um vilja sveitarfélaganna í orkumálum. Hann er skýr og miðar að því að Vestfirðir sitji við sama borð og aðrir landshlutar í innviðauppbyggingu og verði samkeppnishæfari en nú er, jafnt um íbúa sem fyrirtæki. Liður í því er að auka orkuframleiðslu innan fjórðungsins og ljóst má vera að virkjun Hvalár í Ófeigsfirði á Ströndum fellur því vel að ályktun vestfirskra sveitarstjórnarmanna.

Virkjun Hvalár er stærsta einstaka orkuframleiðsluverkefnið á Vestfjörðum og mun framkvæmdin, tengivirki og línulagnir henni tengdar, leggja grunninn að öðrum virkjunarmöguleikum á Vestfjörðum, einkum við Ísafjarðardjúp.

Bæjarfulltrúar Ísafjarðarbæjar, Marzellíus Sveinbjörnsson og Arna Lára Jónsdóttir, ásamt Baldri Smára Einarssyni, bæjarfulltrúa Bolungarvíkurkaupstaðar, á haustþingi Fjórðungssambands Vestfirðinga í Edinborgarhúsinu á Ísafirði í byrjun október. Ljósmynd: Kristinn H. Gunnarsson, Bæjarins Besta.
Bæjarfulltrúar Ísafjarðarbæjar, Marzellíus Sveinbjörnsson og Arna Lára Jónsdóttir, ásamt Baldri Smára Einarssyni, bæjarfulltrúa Bolungarvíkurkaupstaðar, á haustþingi Fjórðungssambands Vestfirðinga í Edinborgarhúsinu á Ísafirði í byrjun október. Ljósmynd: Kristinn H. Gunnarsson, Bæjarins Besta.