Virkjun Hvalár til umræðu í heila öld

30/08/2018

Hugmyndir um virkjun Hvalár í Ófeigsfirði á Ströndum eru orðnar nær hundrað ára gamlar og má rekja þær allt til árdaga virkjunarframkvæmda á Íslandi. Hvalá er nefnd á nafn með ýmsum öðrum álitlegum virkjunarkostum á Íslandi í tímaritinu Fylki í maí 1920 þar sem fjallað er ítarlega um raforkumál landsins og þá orkukosti sem Íslendingar stóðu frammi fyrir á þeim tíma.

Þá var Hvaláin talin vera 4-5 m³/s með 200 m fallhæð. Óneitanlega var um nokkuð vanmat að ræða á þessum tíma þar sem áætlanir í dag gera ráð fyrir a.m.k. 15 m³/s úr Hvalá og Rjúkanda og um fimm m³/s úr Eyvindarfjarðará. Einnig er fallhæðin vel yfir 300 og því talsvert meiri en menn áætluðu fyrir heilli öld.

Hvalá - göngubrú.JPG

Göngubrúin yfir Hvalá, rétt við árósinn í Ófeigsfirði. Ljósmynd: Gunnar Gaukur Magnússon

Útlendingar og íslenskir fossar

Þegar umfjöllun Fylkis kom á prent fyrir 98 árum hafði fossanefndin svokallaða verið að störfum frá 1917 en henni var m.a. ætlað að kortleggja nýtingarmöguleika íslenskra fossa og endurskoða fossalögin sem sett voru 1907. Lögunum var ætlað að takmarka eignar- og umráðarétt yfir fossum en forsenda laganna var sú að landeigandi ætti vatnsafl þeirra vatna sem féllu á landi hans. Lögin voru þau fyrstu sinnar tegundar og bönnuðu að meginstefnu eignar- og afnotarétt útlendinga á íslenskum fossum. Undanþágur voru mögulegar og var það konungur eða umboðsmaður hans sem gat veitt þær um ákveðinn tíma og með skilyrðum um vatnsnotkunina.

Markmið fossalaganna var ekki að koma í veg fyrir eignaraðild útlendinga heldur var þeim ætlað að gefa stjórnvöldum möguleika á því að hafa áhrif á það hverjir hlutu leyfi og hverjum var synjað. Lögin voru sett að norskri fyrirmynd.

Íslendingar virkja

Almenn umræða um fossa- og orkumál hér á landi hófst í kringum 1900 og var strax tekist á um erlent eignarhald. Sumir sáu fyrir sér að Ísland yrði efnað iðnaðarland á meðan aðrir óttuðust að útlendingar næðu yfirráðum yfir auðlindum og atvinnutækifærum þjóðarinnar.

Þegar fossanefndin var sett á laggirnar af Alþingi síðla árs 1917 voru liðin 13 ár frá því að fyrsta virkjunin til raforkuframleiðslu var sett upp í Læknum í Hafnarfirði árið 1904. Skömmu áður en fossanefndin tók til starfa hófst undirbúningur að virkjun Elliðaánna og lauk þeim framkvæmdum með gangsetningu rafstöðvar árið 1921.

Það var ekki fyrr en árið 1937 sem fyrsta stórvirkjunin á Íslandi var gangsett en það var Ljósafoss-stöð sem var fyrst þriggja virkjana í Soginu. Hinar eru Írafoss-stöð (1953) og Steingríms-stöð (1959). Hér má til gamans sjá slóðir á athyglisverða danska heimildamynd í tveimur hlutum um framkvæmdir við Írafoss-stöðina á árunum 1950-1953. Myndin var framleidd af verktakafyrirtækinu Pihl & Søn í Kaupmannahöfn.

Virkjunarkostir landshlutanna

Það voru stórhuga menn sem lögðu upp með virkjunaráform fyrir Íslendinga í upphafi 20. aldar þótt hægt hefði gengið í fyrstu. Jón Þorláksson, landsverkfræðingur og síðar forsætisráðherra, flutti tímamótaerindi í ársbyrjun 1917 en kjarni erindisins voru hugleiðingar um hvort tímabært væri að hugsa um rafmagn til almenningsnota eða ekki. Jón sagði þar: ,,Fullkomna mynd af fossabraskinu gefa veðmálabækurnar að vísu ekki, en svo mikið má af þeim sjá, að tími er kominn fyrir löggjafavaldið að taka í taumana til þess að tryggja landsmönnum sjálfum hentugustu fossana í hverjum landshluta til fullnægingar sínum eigin þörfum".

Þarna, fyrir röskum 100 árum, áréttaði Jón Þorláksson nauðsyn þess að í hverjum landshluta yrði tryggt að íbúar gætu nýtt vatnsafl fossanna í eigin þarfir.

Jón Þorláksson.jpg

Jón Þorláksson

Tómlæti Vestfirðinga

Umræður um virkjun Hvalár í Ófeigsfirði héldu áfram með hléum fram eftir allri 20. öldinni og í mars 1949 má lesa þessi skrif Hannibals Valdimarssonar, alþingmanns, í Skutli: „Stærsta framtíðarmál kauptúnanna á Vestfjörðum er sameiginleg lausn raforkumálanna með vatnsvirkjun, þar sem skilyrði teljast bezt fyrir hendi. Helzt koma til álita þessi vatnsföll: Dynjandisá í Arnarfirði, Mjólká í Arnarfirði, Þverá í Nauteyrarhreppi með uppistöðu í Skúfnavötnum eða Hvalá í Ófeigsfirði. Virkjanlegt afl þessara fallvatna er lauslega áætlað samtals um 40 þúsund hestöfl.“ Þótti Hannibal nóg um tómlæti Vestfirðinga í þessum efnum og taldi brýna þörf á því að þeir héldu raforkumálum sínum fastar fram.

Hannibal Valdimarsson.jpg

Hannibal Valdimarsson

Fleiri tóku í sama streng og Hannibal síðar á öldinni og töldu að Vestfirðingar hefðu ekki fylgt þessum mikilvægu baráttumálum nægilega vel eftir. Fyrstu rannsóknir í grennd við Hvalá hófust þó um miðjan áttunda áratuginn og voru þær unnar af hálfu Orkustofnunar. Stofnunin sinnti rannsóknum á svæðinu af og til næstu tvo áratugi og Orkubú Vestfjarða skoðaði möguleika þess að virkja en féll frá frekari athugunum á þeim forsendum að um of dýra framkvæmd yrði að ræða og óvissa ríkti um sölumöguleika orkunnar.

Það voru loks forsvarsmenn VesturVerks á Ísafirði sem hófu viðræður við landeigendur um leigu vatnsréttinda í Ófeigsfirði í kringum 2007 og hefur allar götur síðan verið unnið markvisst að því að virkjun Hvalár verði að veruleika.


Heimildir:

Lög og réttur - Sigurður Gizurarson, Fossanefndin 1917-1919, Aðdragandi að setningu vatnalaga nr. 15/1923

Fylkir – maí 1920

Skutull – mars 1949