Hest- og Skötufjörður

Skötufjarðarvirkjun var hluti af eldri hugmyndum um virkjun Glámuhálendisins með svokölluðum þakrennum, en sú hugmynd var fyrst sett fram af Orkustofnun árið 1977. Þessi orkukostur var talinn hagkvæmastur orkukosta á norðurhluta Glámuhálendisins vegna mikillar fallhæðar. Rennslismælingar með sírita hafa verið gerðar síðan 1975 neðan ármóta Hundsár og Rjúkanda .

Næstum hálf öld frá fyrstu hugmynd

Orkustofnun setti fyrst fram hugmyndir um virkjun í Skötufirði 1974. Sú athugun benti til þess að um væri að ræða hagkvæma virkjun, fyrst og fremst vegna mikillar fallhæðar.

Í áætlun Orkustofnunar var tilhögun virkjunarinnar þannig að inntakslón hennar var í vatni í 512 m.y.s. á vatnasviði Hundsár. Fallpípan var áætluð 3200m löng og 1,3-1,0m víð og yrði lögð að stöðvarhúsi sem staðsett yrði í 25m.y.s.

Ofan við inntakslónið, í Hundsvatni (573m.y.s.) og í vatni í 568m.y.s. var gert ráð fyrir miðlunum. Þessum miðlunum var ætlað að tengjast saman með 1,45 km jarðgöngum. Vatnasvið virkjunarinnar yrði um 31Km² og samanlagt miðlunarrými um 36 Gl.

Virkjað rennsli yrði um 4,09 m³/s og raunfallhæð um 465m. Uppsett afl yrði 16,8 MW og framleiðslugeta virkjunarinnar um 101 GWh/ári. Hagkvæmni veitu af vatnasviði Hestfjarðar var talin neikvæð. Gert var ráð fyrir að inntakslónið gæfi 19,9 Gwh/ári, Hundsvatn 45,1 GWh/ári og vatn í 568 m.y.s. á vatnasviði Rjúkanda 35,7 Gwh/ári.

Frumdrög virkjunar kynnt Súðavíkurhreppi

Frumdrög virkjunar í Hest- og Skötufirði voru send til kynningar í Súðavíkurhreppi í febrúar 2018 í tengslum við endurskoðun aðalskipulags hreppsins. Í drögunum fylgdi stutt lýsing:

,,Með virkjuninni er gert ráð fyrir að virkja aðrennslissvæði Hunds- og Rjúkandivatns á vatnasviði Skötufjarðar með neðanjarðarvatnsvegum og stöðvarhúsi neðanjarðar í botni Hestfjarðar. Til viðbótar yrði veitt til Hundsvatns með skurðum úr vatni í 625 m y.s norðvestan þess og hugsanlega til Rjúkandivatns úr austri. Veita þarf vatni frá Rjúkandivatni til Hundsvatns með skurði eins og sýnt er á teikningunni eða pípum og stuttum jarðgöngum þannig að nýta megi Rjúkandivatn til miðlunar líka. Með því að hækka vatnsborð Hundsvatna um 8 m með stíflugerð og draga niður í því niður fyrir náttúrulegt vatnsborð má fá 22 Gl miðlun í vötnunum tveimur. Heildarefnismagn í stíflur gæti verið um 300 000 m3.

Um 5 km löng veitugöng lægju frá Hundsvatni undir fjallsgarðinn á milli Skötu- og Hestfjarðar að inntakslóni í vatni sem er í um 457 m y.s á fjallsbrún ofan dalsins inn af Hestfirði. Vatnsborð inntakslónsins yrði hækkað um ca. 6 m. Veitt yrði til inntakslónsins úr vatni skammt sunnan þess í hæð 567 m y.s. með nokkrum litlum stíflum og skurðum.

Aðrennslis- og frárennslisgöng virkjunarinnar yrðu um 3 km löng og frárennslisgöngin opnuðust út úr hlíðarfætinum skammt ofan þjóðvegarins í Hestfjarðarbotni, nánast við sjávarmál. Neðanjarðarstöðvarhús yrði inni í fjallinu og að því lægi allt að 1 km löng aðkomugöng. Munni aðkomugangana gæti verið nokkuð innar í dalnum og allt að 100 m ofar í hlíðinni, þar sem best færi á að staðsetja hann.

Öll jarðgöng yrðu af lágmarksstærð sem hagkvæmt er að grafa, sennilega um 16 m2.

Gert er ráð fyrir að meðalafrennsli af vatnasviðunum sem nýtt yrðu sé um 80 l/s/km2. Það gerir um 2,3 m3/s meðalrennsli af vatnasviði Skötufjarðar og 1,0 m3/s af vatnasviði Hestfjarðar. Samtals er aðrennsli því um 3,3 m3/s og rennslisorka þessa vatns um 115 GWh/a. Þar sem virkjunin er nokkuð vel miðluð gæti meðalorkuframleiðslan verið um 105 GWh/a. Miðað við 6000 h nýtingu yrði uppsett afl um 17 MW og mesta virkjað rennsli um 4,5 m3/s.

Ekki er ljóst hvernig aðkoma verður upp á hálendið en auðveldast er að komast upp á hálendið á svipuðum stað og nú liggur slóði upp úr Mjóafirði.

Helstu kennistærðir virkjunar eru því eftirfarandi:

Vatnasvið á vatnasviði Skötufjarðar 28,4 km2

Vatnasvið á vatnasviði Hestfjarðar 13,0 km2

Aðrennsli samtals 3,3 m3/s.

Nýtanleg miðlun í Hunds og Rjúkandavatni ~22 Gl

Stíflurúmmál 300 000 m3

Lengd veituganga (~16 m2) 5,0 km

Lengd aðrennslis og frárennslisganga 3,0 km

Lengd aðkomuganga ~1,0 km

Virkjað rennsli 4,5 m3/s

Uppsetta afl ( 6 stúta Pelton vél) 17 MW

Orkuframleiðsla 105 Gwh/a

Orkukostnaður er ekki ljós en væntanlega er hann nokkuð hár þar sem vatnsvegir eru langir og lágmarksstærð þeirra gæti flutt margfalt virkjað rennsli án þess að það þyrfti að stækka þá."

Tenging við netið

Tenging Hest- og Skötufjarðarvirkjunar yrði til Ísafjarðar, Súðavíkur eða Mjólkárvirkjunar með 66KV loftlínum eða jarðstrengjum.

Rannsóknir

Vesturverk hóf rannsóknir á Hest- og Skötufjarðarvirkjun í samstarfi við verkfræðistofuna Mannvit sumarið 2016 með uppsetningu þriggja sírita á vatnasviði virkjunarinnar. Tilgangur rannsóknanna er að afla gagna fyrir rammaáætlun IIII.

Rannsóknarleyfi

Rannsóknarleyfi VesturVerks vegna Hest- og Skötufjarðarvirkjunar gildir frá 5. apríl 2016 til 4. apríl 2020. Hest- og Skötufjarðarvirkjun er af þeirri stærðargráðu að hún mun þurfa að fara fyrir rammaáætlun IIII.

Yfirlitsmynd sem sýnir frumdrög virkjunar í Hest- og Skötufirði. Mynd: Verkís.
Yfirlitsmynd sem sýnir frumdrög virkjunar í Hest- og Skötufirði. Mynd: Verkís.