Fréttir

20/12/2019

Guðni A. Jóhannesson, orkumálastjóri, birti í gær árlegan jólapistil sinn á vef Orkustofnunar. Pistillinn er í lengra lagi en þar kennir ýmissa grasa sem fróðlegt er að fara í gegnum fyrir áhugafólk um orkumál.

Guðni gerir loftslagsvanda heims fyrst að umtalsefni og segir það litlu skipta hversu mikið Íslendingar losa af kolefni: "Vandamál okkar vegna loftslagsbreytinga verða ekki minni ef árangur í samdrætti losunar næst ekki á heimsvísu. Möguleikar ríkja til þess að vinna að minnkun losunar og bindingar kolefnis eru ekki endilega mestir innan eigin landamæra. Þetta á svo sannarlega við um Ísland."

29/10/2019

Vestfirskir sveitarstjórnarmenn fagna áformum um aukna raforkuframleiðslu á Vestfjörðum með sjálfbærri nýtingu vatns og vinds. Fyrirhuguð Hvalárvirkjun og fleiri vatnsaflskostir í fjórðungnum, ásamt áformum um vindorkugarð í Garpsdal, falla þar vel undir.

Ályktun þessa efnis um raforkumál var samþykkt á nýliðnu haustþingi Fjórðungssambands Vestfirðinga, sem fram fór í félagsheimilinu á Hólmavík dagana 25.-26. október s.l. Á haustþinginu var því einnig fagnað að nýr tengipunktur raforku í Ísafjarðardjúpi er kominn á framkvæmdaáætlun Landsnets.

15/10/2019

Hvar er eðlilegast að virkja vatnsafl og geyma vatn í lónum til vetrarins?

Þannig spyr Þorbergur Steinn Leifsson, verkfræðingur, í nýlegri færslu á samfélagsmiðlinum Facebook og birtir um leið áhugaverða yfirlitsmynd frá Nytjalandi um gróðurfar á Íslandi. Þorbergur starfar hjá Verkís og er yfirhönnuður Hvalárvirkjunar, en hann er einn fremsti hönnuður landsins á sviði vatnsaflsvirkjana.

10/09/2019

Vegaframkvæmdum VesturVerks á Ófeigsfjarðarvegi í Árneshreppi vegna undirbúnings Hvalárvirkjunar er nú lokið að sinni og bíða frekari framkvæmdir þess að vori á ný. Vinnuvélar og tæki voru öll flutt af svæðinu í dag en síðustu daga hefur verið unnið að því að bera efni í einstaka kafla vegarins og ganga vel frá í kringum vegstæðið. Mikil vatnsveður hafa verið fyrir norðan undanfarnar vikur og var aurbleytan orðin verktökum erfið viðureignar.

15/08/2019

Viðhald og lagfæringar á Ófeigsfjarðarvegi ganga samkvæmt áætlun og eru langt komnar á þeim hluta vegarins sem liggur um Ingólfsfjörð. Sótt hefur verið um leyfi til að sækja efni í opna námu innst í firðinum og verður efnið notað til að bera ofan í veginn. Beðið verður í nokkra daga með að hefja vinnu við veginn um land Seljaness, m.a. vegna andmæla minnihluta landeigenda. Fyrst verður unnið að vegabótum innst í Ófeigsfirði.

VesturVerk sendi frá sér fréttatilkynningu fyrr í vikunni til að upplýsa um stöðu verkefnisins og næstu skref:

5/07/2019

Í þeirri miklu umræðu sem nú er um fyrirhugaða virkjun Hvalár í Ófeigsfirði er mikilvægt að staðreyndum sé haldið til haga og farið sé með rétt mál. Nýverið tók Vestfjarðastofa saman nokkrar staðreyndir um rafmagn á Vestfjörðum sem varpa ljósi á stöðu raforkumála í fjórðungnum. Ljóst er að aukin vinnsla raforku innan Vestfjarða er ein helsta forsenda þess að tryggja betur raforkuöryggi í landshlutanum og skapa grundvöll fyrir vöxt í atvinnulífi á Vestfjörðum.

25/06/2019

Í kjölfar frétta mánudaginn 24. júní 2019 um kærur hluta landeigenda Drangavíkur vegna deiliskipulags Hvalárvirkjunar í Ófeigsfirði á Ströndum vill VesturVerk ehf koma eftirfarandi á framfæri:

Í þau 13 ár sem VesturVerk hefur haft Hvalárvirkjun í undirbúningi hafa engar vísbendingar borist um að landamerki í Ófeigsfirði séu með þeim hætti sem hluti af landeigendum Drangavíkur lýsa í kæru sinni. Sá liður kærunnar kemur því forsvarsmönnum VesturVerks í opna skjöldu og er ekki í samræmi við þau landamerkjabréf sem unnið hefur verið eftir.

20/06/2019

Vegagerðin og VesturVerk ehf. hafa gert samkomulag sín á milli um að VesturVerk taki tímabundið við veghaldi Ófeigsfjarðarvegar í Árneshreppi. Samningur um veghaldið er liður í undirbúningi virkjunar Hvalár og gildir hann til fimm ára.

13/06/2019

Hreppsnefnd Árneshrepps samþykkti einróma á fundi sínum í gær að veita VesturVerki framkvæmdaleyfi til að hefja síðasta hluta rannsókna sinna vegna Hvalárvirkjunar. Er þetta stór áfangi í verkefninu en með framkvæmdaleyfinu verður loks hægt að undirbúa kjarnaboranir á Ófeigsfjarðarheiði, sem fyrirhugaðar eru sumarið 2020. Til að undirbúa þær verður í sumar ráðist í að brúa Hvalá, undirbúa vinnusvæði fyrir starfsmannabúðir, leggja vinnuvegi á láglendi og undirbúa efnistökusvæði. Einnig verður ráðist í lagfæringar á veginum frá Norðurfirði í Ófeigsfjörð.

3/06/2019

Hreppsnefnd Árneshrepps getur nú auglýst deiliskipulagstillögu vegna Hvalárvirkjunar á nýjan leik en Skipulagsstofnun hefur tilkynnt hreppnum að stofnunin geri ekki athugasemdir við auglýsingu skipulagsins. Um leið og auglýsing birtist í Stjórnartíðindum öðlast skipulagið gildi og í framhaldinu getur Árneshreppur gefið út framkvæmdaleyfi til VesturVerks vegna undirbúningsrannsókna við Hvalá.