Fréttir

20/02/2018

Vatnsréttindi á Vestfjörðum hafa verið töluvert í umræðunni að undanförnu í tengslum við ýmis virkjunaráform og skipulagsvinnu í sveitarfélögum. Vatnsréttindi tengd verkefnum VesturVerks á Vestfjörðum tilheyra í flestum tilfellum landi í einkaeign. Sveitarfélög við Djúp skoða nú hvort vatnsréttindi, sem sveitarfélög lögðu inn við stofnun Orkubús Vestfjarða fyrir fjörutíu árum, séu afturkræf.

14/02/2018

Frumdrög að tveimur virkjunum, sem VesturVerk áformar að reisa við Ísafjarðardjúp, hafa verið send Súðavíkurhreppi til kynningar. Þetta eru Hvanneyrardalsvirkjun inn af botni Ísafjarðar og Hest- og Skötufjarðarvirkjun. Frumdrögin eru unnin af verkfræðistofunni Verkís fyrir hönd VesturVerks.

Nú stendur yfir endurskoðun á aðalskipulagi Súðavíkurhrepps og eru frumdrögin ætluð sem liður í þeirri skipulagsvinnu. Gildistími núgildandi skipulags er 1999-2018 en það var staðfest árið 2002. Í aðalskipulagsvinnunni er mótuð heildarstefna um framtíðarnotkun lands og fyrirkomulag byggðar. Rík áhersla hefur verið lögð á þátttöku íbúa og hagsmunaaðila í skipulagsvinnunni en áætlað er að henni ljúki um mitt ár 2018.

8/02/2018

Umræða um vindmyllur sem valkost í orkuframleiðslu á Íslandi fer vaxandi. Spurt er hvort vindmyllugarðar geti komið í stað vatnsaflsvirkjana, t.a.m. í stað Hvalárvirkjunar á Ströndum. Til að átta sig á umfangi slíkra garða er gott að glöggva sig á samanburði Hvalárvirkjunar, sem verður 55 MW að stærð, við mögulegan vindmyllugarð með samsvarandi framleiðslugetu.

Við hönnun og staðarval vindmyllugarðs þarf að miða við bæði veðurfarslegar aðstæður til orkunýtingar og áhrif mannvirkja á umhverfið, þannig að hámarksframleiðsla náist með sem minnstum umhverfisáhrifum.

2/02/2018

Þegar rætt er um Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði er því haldið fram af ýmsum að búið sé að ráðstafa allri raforku frá virkjuninni til stóriðju utan Vestfjarða. Það er rangt. VesturVerk er eigandi Hvalárvirkjunar og fyrirtækið hefur enga samninga gert um sölu á raforku frá fyrirhugaðri virkjun enda er langt í að hægt verði að gangsetja hana. Ef bjartsýnustu áætlanir ganga eftir yrði það í fyrsta lagi að fjórum árum liðnum. HS Orka, sem er meirihlutaeigandi í VesturVerki, hefur þaðan af síður gert sölusamninga um orku frá Hvalá enda mun HS Orka ekki gera slíka samninga. Einungis VesturVerk getur gert samninga um sölu orku frá Hvalárvirkjun.

31/01/2018

Hreppsnefnd Árneshrepps samþykkti á fundi sínum í gær fyrri hluta tillagna VesturVerks að breytingu á aðal- og deiliskipulagi hreppsins vegna fyrirhugaðrar Hvalárvirkjunar. Þrír fulltrúar greiddu atkvæði með breytingunni en tveir voru á móti. Breytingarnar lúta að vinnuvegum, efnistökustöðum og staðsetningu vinnubúða. Skipulagsbreytingin verður send til Skipulagsstofnunar sem hefur fjórar vikur til að staðfesta hana. Stofnunin getur synjað eða frestað gildistökunni en slíkt er sjaldgæft.

30/01/2018

Hreppsnefnd Árneshrepps fundar í dag um breytingar á aðal- og deiliskipulagi hreppsins. Þar verður tekinn fyrir fyrri hluti tillagna VesturVerks að skipulagsbreytingum vegna Hvalárvirkjunar en þær lúta að vinnuvegum, efnistökustöðum og staðsetningu vinnubúða. Síðari hluti skipulagstillagna VesturVerks vegna virkjunarframkvæmdanna verður lagður fram til kynningar á vormánuðum.

Fyrir hreppsnefndinni liggja einnig tvö erindi VesturVerks sem snúa að mögulegum hitaveituframkvæmdum í hreppnum ásamt tillögum að samfélagsverkefnum, sem VesturVerk lýsir sig reiðubúið að ráðast í verði af virkjunarframkvæmdum. Óvíst er hvort þau erindi verða tekin fyrir á fundinum í dag.

25/01/2018

Á vefsiðu Landsnets er að finna áhugavert yfirlitskort sem sýnir í rauntíma heildarflutning raforku um flutningskerfi Landsnets. Kortið er hreyfanlegt og sýnir hve mikið afl er flutt frá einum stað til annars á hverjum tíma. Á köldum janúardegi 2018 er flutningur afls inn á Vestfirði ríflega 30MW.

23/01/2018

 Á vefsíðu Orkubús Vestfjarða er nú að finna ágæta umfjöllun sem ber yfirskriftina ,,Hvalárvirkjun, uppistöðulón og stíflur" Í greininni kemur fram að þegar rætt sé um verklegar framkvæmdir, s.s. virkjanir, vegagerð eða varnarmannvirki, þá eigi almenningur oft erfitt með að átta sig á umfangi viðkomandi mannvirkja í náttúrunni þegar þau eru fullbyggð og búið að ganga frá öllu raski. Enn fremur eigi fólk erfitt með að ímynda sér ásýnd framkvæmdasvæða nokkrum árum eftir lok framkvæmda, t.d. hversu fljótt gróður hefur náð sér á strik og grjót veðrast

22/01/2018

Birna Lárusdóttir gekk til liðs við VesturVerk nú um áramót og mun hún gegna starfi upplýsingafulltrúa og verkefnastjóra fyrirtækisins. Ráðning Birnu er liður í því að stuðla að málefnalegri umræðu um fyrirhugaðar vikjanaframkvæmdir fyrirtækisins á Vestfjörðum og raforkumál almennt.


19/01/2018

VesturVerk tók í gær í notkun nýja vefsíðu fyrirtækisins en sú gamla mátti muna fífil sinn fegurri enda orðin tíu ára gömul. Af þessu tilefni var fulltrúum sveitarstjórna við Djúp, Orkubúss Vestfjarða og stærstu eldisfyrirtækja á svæðinu boðið í kaffi og meðlæti í húsnæði fyrirtækisins að Suðurgötu 12 - Vestrahúsinu. Starfsfólki í hinum ýmsu stofnunum í húsinu var einnig boðið að þiggja veitingar og voru gestir um 50 talsins.