Fréttir

1/06/2024

Vefsíða VesturVerks hefur verið vakin úr dvala en fjögur ár eru liðin síðan efni var síðast uppfært á síðunni. Hélst það í hendur við að dregið var tímabundið úr starfsemi félagsins á vormánuðum 2020. Fréttir af framgangi verkefna munu nú birtast á síðunni á nýjan leik.

27/04/2020

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur annars vegar vísað frá og hins vegar hafnað kröfum um ógildingu framkvæmdaleyfis til VesturVerks vegna lagfæringa á Ófeigsfjarðarvegi í Árneshreppi. Nefndin kvað upp úrskurð sinn á föstudag. Kröfu hluta landeigenda jarðarinnar Seljaness var vísað frá þar sem þeir teljast ekki eiga lögvarða hagsmuni í málinu. Eigendur Eyrar í Ingólfsfirði eru taldir eiga hagsmuna að gæta en kröfu þeirra var þó hafnað.

26/03/2020

Landsréttur staðfesti í dag frávísun Héraðsdóms Vestfjarða á dómsmáli hluta landeigenda Drangavíkur á Ströndum á hendur VesturVerki ehf. og Árneshreppi.

22/01/2020

VesturVerk hefur í samstarfi við verkfræðistofuna Mannvit unnið vandað myndband sem sýnir hvernig Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði á Ströndum mun líta út til framtíðar. Þar má sjá að mannvirki tengd virkjuninni verða nær öll neðanjarðar, ef frá eru taldar stíflur efst á Ófeigsfjarðarheiði og aðliggjandi vegir.

9/01/2020

Héraðsdómur Vestfjarða vísaði í dag frá dómsmáli hluta landeigenda Drangavíkur í Árneshreppi á Ströndum á hendur VesturVerki ehf. og Árneshreppi. Landeigendur höfðuðu mál gegn Vesturverki og Árneshreppi í lok sumars og kröfðust þess að framkvæmdaleyfi Vesturverks, fyrir framkvæmdum á Ófeigsfjarðarheiði vegna Hvalárvirkjunar, yrði fellt úr gildi sem og deiliskipulag vegna framkvæmdanna.

23/12/2019

Starfsfólk VesturVerks óskar landsmönnum öllum gleðilegra jóla með ósk um farsælt og rafmagnað nýtt ár.

20/12/2019

Guðni A. Jóhannesson, orkumálastjóri, birti í gær árlegan jólapistil sinn á vef Orkustofnunar. Pistillinn er í lengra lagi en þar kennir ýmissa grasa sem fróðlegt er að fara í gegnum fyrir áhugafólk um orkumál.

Guðni gerir loftslagsvanda heims fyrst að umtalsefni og segir það litlu skipta hversu mikið Íslendingar losa af kolefni: "Vandamál okkar vegna loftslagsbreytinga verða ekki minni ef árangur í samdrætti losunar næst ekki á heimsvísu. Möguleikar ríkja til þess að vinna að minnkun losunar og bindingar kolefnis eru ekki endilega mestir innan eigin landamæra. Þetta á svo sannarlega við um Ísland."

29/10/2019

Vestfirskir sveitarstjórnarmenn fagna áformum um aukna raforkuframleiðslu á Vestfjörðum með sjálfbærri nýtingu vatns og vinds. Fyrirhuguð Hvalárvirkjun og fleiri vatnsaflskostir í fjórðungnum, ásamt áformum um vindorkugarð í Garpsdal, falla þar vel undir.

Ályktun þessa efnis um raforkumál var samþykkt á nýliðnu haustþingi Fjórðungssambands Vestfirðinga, sem fram fór í félagsheimilinu á Hólmavík dagana 25.-26. október s.l. Á haustþinginu var því einnig fagnað að nýr tengipunktur raforku í Ísafjarðardjúpi er kominn á framkvæmdaáætlun Landsnets.

15/10/2019

Hvar er eðlilegast að virkja vatnsafl og geyma vatn í lónum til vetrarins?

Þannig spyr Þorbergur Steinn Leifsson, verkfræðingur, í nýlegri færslu á samfélagsmiðlinum Facebook og birtir um leið áhugaverða yfirlitsmynd frá Nytjalandi um gróðurfar á Íslandi. Þorbergur starfar hjá Verkís og er yfirhönnuður Hvalárvirkjunar, en hann er einn fremsti hönnuður landsins á sviði vatnsaflsvirkjana.

10/09/2019

Vegaframkvæmdum VesturVerks á Ófeigsfjarðarvegi í Árneshreppi vegna undirbúnings Hvalárvirkjunar er nú lokið að sinni og bíða frekari framkvæmdir þess að vori á ný. Vinnuvélar og tæki voru öll flutt af svæðinu í dag en síðustu daga hefur verið unnið að því að bera efni í einstaka kafla vegarins og ganga vel frá í kringum vegstæðið. Mikil vatnsveður hafa verið fyrir norðan undanfarnar vikur og var aurbleytan orðin verktökum erfið viðureignar.