Vefsíða VesturVerks hefur verið vakin úr dvala en fjögur ár eru liðin síðan efni var síðast uppfært á síðunni. Hélst það í hendur við að dregið var tímabundið úr starfsemi félagsins á vormánuðum 2020. Fréttir af framgangi verkefna munu nú birtast á síðunni á nýjan leik.
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur annars vegar vísað frá og hins vegar hafnað kröfum um ógildingu framkvæmdaleyfis til VesturVerks vegna lagfæringa á Ófeigsfjarðarvegi í Árneshreppi. Nefndin kvað upp úrskurð sinn á föstudag. Kröfu hluta landeigenda jarðarinnar Seljaness var vísað frá þar sem þeir teljast ekki eiga lögvarða hagsmuni í málinu. Eigendur Eyrar í Ingólfsfirði eru taldir eiga hagsmuna að gæta en kröfu þeirra var þó hafnað.
Landsréttur staðfesti í dag frávísun Héraðsdóms Vestfjarða á dómsmáli hluta landeigenda Drangavíkur á Ströndum á hendur VesturVerki ehf. og Árneshreppi.
VesturVerk hefur í samstarfi við verkfræðistofuna Mannvit unnið vandað myndband sem sýnir hvernig Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði á Ströndum mun líta út til framtíðar. Þar má sjá að mannvirki tengd virkjuninni verða nær öll neðanjarðar, ef frá eru taldar stíflur efst á Ófeigsfjarðarheiði og aðliggjandi vegir.
Héraðsdómur Vestfjarða vísaði í dag frá dómsmáli hluta landeigenda Drangavíkur í Árneshreppi á Ströndum á hendur VesturVerki ehf. og Árneshreppi. Landeigendur höfðuðu mál gegn Vesturverki og Árneshreppi í lok sumars og kröfðust þess að framkvæmdaleyfi Vesturverks, fyrir framkvæmdum á Ófeigsfjarðarheiði vegna Hvalárvirkjunar, yrði fellt úr gildi sem og deiliskipulag vegna framkvæmdanna.
Starfsfólk VesturVerks óskar landsmönnum öllum gleðilegra jóla með ósk um farsælt og rafmagnað nýtt ár.
Guðni A. Jóhannesson, orkumálastjóri, birti í gær árlegan jólapistil sinn á vef Orkustofnunar. Pistillinn er í lengra lagi en þar kennir ýmissa grasa sem fróðlegt er að fara í gegnum fyrir áhugafólk um orkumál.
Guðni gerir loftslagsvanda heims fyrst að umtalsefni og segir það litlu skipta hversu mikið Íslendingar losa af kolefni: "Vandamál okkar vegna loftslagsbreytinga verða ekki minni ef árangur í samdrætti losunar næst ekki á heimsvísu. Möguleikar ríkja til þess að vinna að minnkun losunar og bindingar kolefnis eru ekki endilega mestir innan eigin landamæra. Þetta á svo sannarlega við um Ísland."
Vestfirskir sveitarstjórnarmenn fagna áformum um aukna raforkuframleiðslu á Vestfjörðum með sjálfbærri nýtingu vatns og vinds. Fyrirhuguð Hvalárvirkjun og fleiri vatnsaflskostir í fjórðungnum, ásamt áformum um vindorkugarð í Garpsdal, falla þar vel undir.
Ályktun þessa efnis um raforkumál var samþykkt á nýliðnu haustþingi Fjórðungssambands Vestfirðinga, sem fram fór í félagsheimilinu á Hólmavík dagana 25.-26. október s.l. Á haustþinginu var því einnig fagnað að nýr tengipunktur raforku í Ísafjarðardjúpi er kominn á framkvæmdaáætlun Landsnets.
Hvar er eðlilegast að virkja vatnsafl og geyma vatn í lónum til vetrarins?
Þannig spyr Þorbergur Steinn Leifsson, verkfræðingur, í nýlegri færslu á samfélagsmiðlinum Facebook og birtir um leið áhugaverða yfirlitsmynd frá Nytjalandi um gróðurfar á Íslandi. Þorbergur starfar hjá Verkís og er yfirhönnuður Hvalárvirkjunar, en hann er einn fremsti hönnuður landsins á sviði vatnsaflsvirkjana.
Vegaframkvæmdum VesturVerks á Ófeigsfjarðarvegi í Árneshreppi vegna undirbúnings Hvalárvirkjunar er nú lokið að sinni og bíða frekari framkvæmdir þess að vori á ný. Vinnuvélar og tæki voru öll flutt af svæðinu í dag en síðustu daga hefur verið unnið að því að bera efni í einstaka kafla vegarins og ganga vel frá í kringum vegstæðið. Mikil vatnsveður hafa verið fyrir norðan undanfarnar vikur og var aurbleytan orðin verktökum erfið viðureignar.