Fréttir

31/01/2018

Hreppsnefnd Árneshrepps samþykkti á fundi sínum í gær fyrri hluta tillagna VesturVerks að breytingu á aðal- og deiliskipulagi hreppsins vegna fyrirhugaðrar Hvalárvirkjunar. Þrír fulltrúar greiddu atkvæði með breytingunni en tveir voru á móti. Breytingarnar lúta að vinnuvegum, efnistökustöðum og staðsetningu vinnubúða. Skipulagsbreytingin verður send til Skipulagsstofnunar sem hefur fjórar vikur til að staðfesta hana. Stofnunin getur synjað eða frestað gildistökunni en slíkt er sjaldgæft.

30/01/2018

Hreppsnefnd Árneshrepps fundar í dag um breytingar á aðal- og deiliskipulagi hreppsins. Þar verður tekinn fyrir fyrri hluti tillagna VesturVerks að skipulagsbreytingum vegna Hvalárvirkjunar en þær lúta að vinnuvegum, efnistökustöðum og staðsetningu vinnubúða. Síðari hluti skipulagstillagna VesturVerks vegna virkjunarframkvæmdanna verður lagður fram til kynningar á vormánuðum.

Fyrir hreppsnefndinni liggja einnig tvö erindi VesturVerks sem snúa að mögulegum hitaveituframkvæmdum í hreppnum ásamt tillögum að samfélagsverkefnum, sem VesturVerk lýsir sig reiðubúið að ráðast í verði af virkjunarframkvæmdum. Óvíst er hvort þau erindi verða tekin fyrir á fundinum í dag.

25/01/2018

Á vefsiðu Landsnets er að finna áhugavert yfirlitskort sem sýnir í rauntíma heildarflutning raforku um flutningskerfi Landsnets. Kortið er hreyfanlegt og sýnir hve mikið afl er flutt frá einum stað til annars á hverjum tíma. Á köldum janúardegi 2018 er flutningur afls inn á Vestfirði ríflega 30MW.

23/01/2018

 Á vefsíðu Orkubús Vestfjarða er nú að finna ágæta umfjöllun sem ber yfirskriftina ,,Hvalárvirkjun, uppistöðulón og stíflur" Í greininni kemur fram að þegar rætt sé um verklegar framkvæmdir, s.s. virkjanir, vegagerð eða varnarmannvirki, þá eigi almenningur oft erfitt með að átta sig á umfangi viðkomandi mannvirkja í náttúrunni þegar þau eru fullbyggð og búið að ganga frá öllu raski. Enn fremur eigi fólk erfitt með að ímynda sér ásýnd framkvæmdasvæða nokkrum árum eftir lok framkvæmda, t.d. hversu fljótt gróður hefur náð sér á strik og grjót veðrast

22/01/2018

Birna Lárusdóttir gekk til liðs við VesturVerk nú um áramót og mun hún gegna starfi upplýsingafulltrúa og verkefnastjóra fyrirtækisins. Ráðning Birnu er liður í því að stuðla að málefnalegri umræðu um fyrirhugaðar vikjanaframkvæmdir fyrirtækisins á Vestfjörðum og raforkumál almennt.


Fyrri 1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 11 12 13 Næsta