Fréttir

5/03/2018

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur vísað frá kæru Landverndar á hendur Orkustofnun vegna framlengingar á rannsóknarleyfi VesturVerks í tengslum við fyrirhugaða Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði í Árneshreppi. Komst nefndin að þeirri niðurstöðu að Landvernd uppfyllti ekki skilyrði til kæruaðildar að málinu. Í úrskurði nefndarinnar segir jafnframt að ekki liggi fyrir ákvörðun um matsskyldu framkvæmda vegna þeirra rannsókna sem fyrirhugaðar eru á grundvelli hins framlengda rannsóknaleyfis.

28/02/2018

Allt að mánuður getur nú liðið þar til Skipulagsstofnun afgreiðir þær breytingar á aðal- og deiliskipulagi Árneshrepps sem meirihluti hreppsnefndar samþykkti í lok janúar. Rökstuðningur hreppsins var sendur stofnuninni 2. mars s.l.. Breytingarnar eru undanfari þess að hreppsnefnd geti veitt VesturVerki framkvæmdaleyfi til frekari undirbúnings Hvalárvirkjunar á Ströndum.

27/02/2018

Miðstjórn Samiðnar, sambands iðnfélaga, sendi nýverið frá sér ályktun þess efnis að við mat á virkjunarkostum við framleiðslu á rafmagni sé nauðsynlegt að hafa þarfir nærsamfélagsins sem mest í forgrunni. Vernd náttúru og virðing fyrir umverfinu eigi að vera grundvallaratriði við mannvirkjagerð og auðlindanýtingu en áríðandi sé að þörfum nærsamfélagsins sé ekki stillt upp sem andstæðu við náttúruvernd.

20/02/2018

Vatnsréttindi á Vestfjörðum hafa verið töluvert í umræðunni að undanförnu í tengslum við ýmis virkjunaráform og skipulagsvinnu í sveitarfélögum. Vatnsréttindi tengd verkefnum VesturVerks á Vestfjörðum tilheyra í flestum tilfellum landi í einkaeign. Sveitarfélög við Djúp skoða nú hvort vatnsréttindi, sem sveitarfélög lögðu inn við stofnun Orkubús Vestfjarða fyrir fjörutíu árum, séu afturkræf.

14/02/2018

Frumdrög að tveimur virkjunum, sem VesturVerk áformar að reisa við Ísafjarðardjúp, hafa verið send Súðavíkurhreppi til kynningar. Þetta eru Hvanneyrardalsvirkjun inn af botni Ísafjarðar og Hest- og Skötufjarðarvirkjun. Frumdrögin eru unnin af verkfræðistofunni Verkís fyrir hönd VesturVerks.

Nú stendur yfir endurskoðun á aðalskipulagi Súðavíkurhrepps og eru frumdrögin ætluð sem liður í þeirri skipulagsvinnu. Gildistími núgildandi skipulags er 1999-2018 en það var staðfest árið 2002. Í aðalskipulagsvinnunni er mótuð heildarstefna um framtíðarnotkun lands og fyrirkomulag byggðar. Rík áhersla hefur verið lögð á þátttöku íbúa og hagsmunaaðila í skipulagsvinnunni en áætlað er að henni ljúki um mitt ár 2018.