Hreppsnefnd Árneshrepps hefur nú samþykkt öðru sinni tillögu að deiliskipulagi hreppsins vegna rannsókna fyrir Hvalárvirkjun. Nefndin fundaði á miðvikudag í síðustu viku og tók fyrir og samþykkti tillögu skipulagsnefndar hreppsins um málið. Deiliskipulagið, sem var fyrst samþykkt í lok september 2018, fer nú aftur til yfirferðar hjá Skipulagsstofnun. Hefja þurfti ferlið upp á nýtt þar sem fyrra skipulagið var auglýst tveimur dögum of seint í Stjórnartíðindum.
VesturVerk hefur nú tekið til starfa í eigin húsnæði að Aðalstræti 9-13 á Ísafirði - efstu hæð. Húsnæðið var áður í eigu hjónanna Kristjáns G. Jóhannssonar og Ingu S. Ólafsdóttur, sem ráku þar Skrifstofuhótelið um langt skeið. Húsnæðið er afar vandað og rúmgott og býður upp á fjölgun starfsfólks þegar fram líða stundir.
Starfsfólk VesturVerks óskar landsmönnum öllum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.
Skaðsemi tilefnislausra kærumála, mótsagnakenndur málflutningur náttúruverndarsinna og þriðji orkupakkinn er meðal þess sem Guðni A. Jóhannesson, orkumálastjóri, tók fyrir í árlega jólaávarpi sínu til starfsmanna Orkustofnunar. Ávarpið í heild má lesa hér en það var birt á vefsíðu Orkustofnunar á þriðjudag.
Hreppsnefnd Árneshrepps hefur nú auglýst að nýju tillögu að deiliskipulagi sem tengist undirbúningsframkvæmdum vegna Hvalárvirkjunar. Skipulagið er til kynningar í sex vikur.
Dráttur á vinnslu málsins hjá Árneshreppi í haust varð til þess að fyrri auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins birtist tveimur dögum of seint. Deiliskipulagið taldist þá ógilt þar sem það var ekki auglýst innan árs frá því að fyrri athugasemdafrestur rann út í október 2017.
Fulltrúar sveitarfélaga á Vestfjörðum hvetja til aukinnar orkuframleiðslu innan fjórðungsins og telja að hún muni stuðla að aukinni sjálfbærni Vestfjarða í orkumálum. Haustþing Fjórðungssambands Vestfirðinga, sem fram fór dagana 5.-6. október, ályktaði í þessa veru en þingið var haldið í skugga mikillar óvissu um framtíð sjókvíaeldis á Vestfjörðum.
Opnar og almennar kynningar eru mikilvægur hluti af því ferli sem mat á umhverfisáhrifum framkvæmda er. VesturVerk hefur nú gert aðgengileg á vefsíðu sinni vönduð og fróðleg veggspjöld úr kynningarferlinu vegna Hvalárvirkjunar en gott getur verið að glöggva sig á verkefninu í stuttum og hnitmiðuðum texta, töflum og vönduðu myndefni sem spjöldin geyma.
„Við getum ekki talað um raunverulegt frelsi til búsetu á meðan grunninnviðir eru með svo mismunandi hætti um landið að það eru einfaldlega ekki sömu tækifærin.“ Sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar, á Alþingi í gær í óundirbúnum fyrirspurnartíma um raforkuöryggi þjóðarinnar. Sagði hún jafnframt að staðan í raforkuöryggi Vestfjarða væri óásættanleg. Fyrirspyrjandi var Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar, sem spurði ráðherra almennt út í fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar í uppbyggingu raforkukerfisins en einnig sérstaklega um hlutverk Hvalárvirkjunar í þeirri uppbyggingu.
Hugmyndir um virkjun Hvalár í Ófeigsfirði á Ströndum eru orðnar nær hundrað ára gamlar og má rekja þær allt til árdaga virkjunarframkvæmda á Íslandi. Hvalá er nefnd á nafn með ýmsum öðrum álitlegum virkjunarkostum á Íslandi í tímaritinu Fylki í maí 1920 þar sem fjallað er ítarlega um raforkumál landsins og þá orkukosti sem Íslendingar stóðu frammi fyrir á þeim tíma.
Þá var Hvaláin talin vera 4-5 m³/s með 200 m fallhæð. Óneitanlega var um nokkuð vanmat að ræða á þessum tíma þar sem áætlanir í dag gera ráð fyrir a.m.k. 15 m³/s úr Hvalá og Rjúkanda og um fimm m³/s úr Eyvindarfjarðará. Einnig er fallhæðin vel yfir 300 og því talsvert meiri en menn áætluðu fyrir heilli öld.
Ásgeir Margeirsson, stjórnarformaður VesturVerks, var gestur Kristjáns Kristjánssonar í útvarpsþættinum Sprengisandi í gær, sunnudag. Fóru þeir ítarlega yfir flest það sem rætt hefur verið og ritað um fyrirhugaða Hvalárvirkjun.
Skipulagsstofnun staðfesti nýverið breytingar á aðalskipulagi Árneshrepps en breytingarnar gera VesturVerki kleift að hefja undirbúningsframkvæmdir vegna Hvalárvirkjunar. Er staðfestingin mikilvægur áfangi í undirbúningi virkjunarinnar sem nú hefur staðið samfellt í rúman áratug innan þess ramma sem lög og reglur hér á landi segja fyrir um.