Fréttir

21/05/2019

Nýr afhendingarstaður raforku í Ísafjarðardjúpi, svokallaður tengipunktur, er kominn á framkvæmdaáætlun Landsnets fyrir árin 2020-2022. Það eru góð tíðindi fyrir Hvalárvirkjun en tengipunkturinn er forsenda þess að hægt sé að flytja rafmagn frá virkjuninni inn á meginflutningskerfi landsins. Áætlanir Landsnets um uppbyggingu flutningskerfisins á Vestfjörðum munu bæta afhendingaröryggi rafmagns í fjórðungnum til muna.

9/05/2019

Um þrír af hverjum fjórum landsmönnum telja að Hvalárvirkjun muni hafa góð áhrif á raforkumál á Vestfjörðum eða 73%. Rúm 62% landsmanna telja að fyrirhuguð virkjun Hvalár á Ströndum muni hafa góð áhrif á búsetu á Vestfjörðum og tæp 67% að hún muni hafa góð áhrif á atvinnuuppbyggingu. Þá telja um 65% landsmanna að Hvalárvirkjun muni hafa góð áhrif á samgöngur á Vestfjörðum.

12/04/2019

Í nýútkominni skýrslu Landsnets eru kynntar hugmyndir að nýjum tengipunkti raforku í Ísafjarðardjúpi ásamt tillögum að línulögnum og jarðstrengjum vegna Hvalárvirkjunar í Ófeigsfirði á Ströndum. Í skýrslunni er sömuleiðis fjallað um mögulegar tengingar frá hinum nýja tengipunkti út eftir fjarðarbotnum við Ísafjarðardjúp áleiðis til Ísafjarðar – svokölluð innfjarðaleið. Með slíkri tengingu næðist að hringtengja Vestfirði, sem hefur verið baráttumál Vestfirðinga um langa hríð.

Skýrslan, sem var unnin af Norconsult fyrir Landsnet, hefur verið kynnt sveitarstjórnum í Árneshreppi, Kaldrananeshreppi, Strandabyggð og Reykhólahreppi sem eru þau sveitarfélög sem fara með skipulagsvald á svæðum þar sem tengipunkti er ætlaður staður og línur munu liggja.

19/03/2019

Landsnet gaf á dögunum út skýrslu sem sýnir að tilkoma Hvalárvirkjunar, með tengipunkti í Ísafjarðardjúpi, mun auka til muna raforkuöryggi á öllum Vestfjörðum. Með mögulegri tengingu til Ísafjarðar yrði afhending raforku þar nær 98% örugg.

18/03/2019

Hreppsnefnd Árneshrepps hefur nú samþykkt öðru sinni tillögu að deiliskipulagi hreppsins vegna rannsókna fyrir Hvalárvirkjun. Nefndin fundaði á miðvikudag í síðustu viku og tók fyrir og samþykkti tillögu skipulagsnefndar hreppsins um málið. Deiliskipulagið, sem var fyrst samþykkt í lok september 2018, fer nú aftur til yfirferðar hjá Skipulagsstofnun. Hefja þurfti ferlið upp á nýtt þar sem fyrra skipulagið var auglýst tveimur dögum of seint í Stjórnartíðindum.