Fréttir

30/04/2018

Raforkumál á Vestfjörðum verða í brennidepli á opnum fundi um raforkumál sem VesturVerk stendur fyrir á Hótel Ísafirði föstudaginn 4. maí kl. 16-18. Fundurinn er öllum opinn og ætlaður sem gagnlegt innlegg í þá mikilvægu umræðu sem uppi er um framtíð raforkumála í fjórðungnum.

17/04/2018

Stórskemmtilegt verkefni um endurnýjanlegar orkuauðlindir á Vestfjörðum, í nútíð og framtíð, er nú til sýnis fyrir gesti og gangandi í Menntaskólanum á Ísafirði. Verkefnið er hluti af námsefni í inngangi að náttúruvísindum fyrir félagsvísindabraut (NÁTV1IF05) en áfanginn er kenndur nýnemum í samstarfi við Fab Lab á Ísafirði. Hvalárvirkjun er meðal orkukostanna, sem nemendurnir fjalla um, enda er virkjunin í nýtingarflokki rammaáætlunar. Vindorka og sjávarföll eru sömuleiðis til skoðunar.

6/04/2018

„Hvalárvirkjun hefur mikil áhrif á raforkukerfið á Vestfjarðarkjálkanum. Í raun má segja að virkjunin umbylti kerfinu, því með henni kemur mikil orkuframleiðsla inn á það innan Vestfjarða. Í fyrsta lagi mun virkjunin væntanlega leiða af sér þriggja fasa rafmagn og tvöfalda tengingu í Árneshreppi. Ennfremur verður Vestfjarðakjálkinn nettó úflytjandi raforku en ekki innflytjandi.“

Þetta er meðal helstu niðurstaðna í nýrri skýrslu Rannsóknastofnunar Háskólans á Akureyri um mat á samfélagsáhrifum Hvalárvirkjunar á Vestfirði. Áður hafði RHA gefið út sambærilega skýrslu um mat á samfélagsáhrifum virkjunarinnar í Árneshreppi. Skýrslurnar eru báðar unnar að beiðni VesturVerks.

22/03/2018

Hvalárvirkjun er lykillinn að framtíð Vestfjarða í orkumálum. Þetta er mat Þorbergs Steins Leifssonar, verkfræðings hjá verkfræðistofunni Verkís. Þorbergur er einn fremsti sérfræðingur landsins á sviði straum- og vatnafræði. Hann bendir á að á nýafstöðnum Vorfundi Landsnets hafi það komið skýrt fram að flutningskerfi raforku landsins stendur ekki undir aukinni eftirspurn eftir raforku í landinu - allra síst á Vestfjörðum. Aukin orkuframleiðsla á Vestfjörðum, einkum virkjun Hvalár, mun standa undir stórum hluta þess sem endurbygging flutningskerfisins í fjórðungnum kostar.

12/03/2018

Hvalárvirkjun kom til umræðu á málþingi um raforkumál sem haldið var í Hofi á Akureyri s.l. fimmtudag. Byggðastofnun stóð fyrir málþinginu en þar var einkum fjallað um flutningskerfi raforku á Íslandi. Þeir sem þar tjáðu sig um málefni Vestfjarða í pallborði voru á einu máli um að með réttum tengingum mun Hvalárvirkjun skipta miklu fyrir raforkuöryggi á Vestfjörðum.

6/03/2018

Með virkjun Hvalár í Ófeigsfirði munu þriggja fasa rafmagn og ljósleiðari komast á í Árneshreppi, annað hvort strax í upphafi framkvæmda eða í upphafi reksturs virkjunarinnar. Tekjur sveitarfélagsins munu aukast verulega á framkvæmdatíma og nokkuð á rekstrartíma auk þess sem ný störf geta orðið til á framkvæmdatíma.

Þetta er meðal helstu niðurstaðna nýrrar skýrslu Rannsóknamiðstöðvar Háskólans á Akureyri (RHA) um mat á samfélagsáhrifum Hvalárvirkjunar á Árneshrepp. Skýrslan er unnin að beiðni VesturVerks. Einnig vinnur RHA að mati á samfélagsáhrifum Hvalárvirkjunar á Vestfirði í heild og er niðurstaðna úr því mati að vænta í lok marsmánaðar.

5/03/2018

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur vísað frá kæru Landverndar á hendur Orkustofnun vegna framlengingar á rannsóknarleyfi VesturVerks í tengslum við fyrirhugaða Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði í Árneshreppi. Komst nefndin að þeirri niðurstöðu að Landvernd uppfyllti ekki skilyrði til kæruaðildar að málinu. Í úrskurði nefndarinnar segir jafnframt að ekki liggi fyrir ákvörðun um matsskyldu framkvæmda vegna þeirra rannsókna sem fyrirhugaðar eru á grundvelli hins framlengda rannsóknaleyfis.

28/02/2018

Allt að mánuður getur nú liðið þar til Skipulagsstofnun afgreiðir þær breytingar á aðal- og deiliskipulagi Árneshrepps sem meirihluti hreppsnefndar samþykkti í lok janúar. Rökstuðningur hreppsins var sendur stofnuninni 2. mars s.l.. Breytingarnar eru undanfari þess að hreppsnefnd geti veitt VesturVerki framkvæmdaleyfi til frekari undirbúnings Hvalárvirkjunar á Ströndum.

27/02/2018

Miðstjórn Samiðnar, sambands iðnfélaga, sendi nýverið frá sér ályktun þess efnis að við mat á virkjunarkostum við framleiðslu á rafmagni sé nauðsynlegt að hafa þarfir nærsamfélagsins sem mest í forgrunni. Vernd náttúru og virðing fyrir umverfinu eigi að vera grundvallaratriði við mannvirkjagerð og auðlindanýtingu en áríðandi sé að þörfum nærsamfélagsins sé ekki stillt upp sem andstæðu við náttúruvernd.

20/02/2018

Vatnsréttindi á Vestfjörðum hafa verið töluvert í umræðunni að undanförnu í tengslum við ýmis virkjunaráform og skipulagsvinnu í sveitarfélögum. Vatnsréttindi tengd verkefnum VesturVerks á Vestfjörðum tilheyra í flestum tilfellum landi í einkaeign. Sveitarfélög við Djúp skoða nú hvort vatnsréttindi, sem sveitarfélög lögðu inn við stofnun Orkubús Vestfjarða fyrir fjörutíu árum, séu afturkræf.